Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 159
158
hún kemur og hvert hún fer, veit enginn með vísindalegum rökum; það
liggur fyrir utan takmörk vísindanna og mannlegt hyggjuvit.“134 Þannig
kemst Þorvaldur Thoroddsen að orði í grein frá 1909, sem vísar veginn
til þess uppgjörs við náttúruvalskenningu Darwins sem átti eftir að setja
sterkan svip á skrif hans. Í greinaflokki sem birtist ári síðar lýsir hann því
hvernig „meginþorri náttúrufræðinga [var] farinn að hallast að skoðunum
Darwíns“ á áttunda áratug nítjándu aldar, en undir aldamótin hafi aftur á
móti tekið að bera á efasemdum og loks gerist það „á hinum fyrstu 9 árum
tuttugustu aldar […] að meginþorri vísindamanna […] er alveg búinn að
yfirgefa úrvalskenningu Darwíns (Selektionstheori), sem er aðalkjarninn í
tilgátum hans, og álítur hana þýðingarlitla fyrir skilning á breytiþróun og
fullkomnun lífsins“.135 Þannig hafi kenning Darwins, líkt og aðrar kenn-
ingar líffræðinnar um þróun, reynst ófær um að finna „hinar innri og
eiginlegu orsakir breytinganna“ og „sjálfar aðalhugmyndir Darwíns, sem
í fyrstu virtust ljósar og auðveldar, eru nú eftir 50 ára rannsóknir orðnar
dimmar og flóknar, og stoðirnar fallnar og fúnar“.136
Lýsingin dregur ekki aðeins fram vitund Þorvaldar um vaxandi gagn-
rýni vísindamanna á náttúruvalskenninguna um aldamótin. Í skrifum hans
má jafnframt sjá áherslu á takmörkun náttúruvísindanna og þær spurning-
ar sem liggja utan þekkingarsviðs þeirra.137 Steindór J. Erlingsson hefur
bent á að greina má augljóst skref í átt til markhyggju og lífhyggju í skrif-
um Þorvaldar á þessum tíma, sem eru um margt lýsandi fyrir hræring-
arnar í alþjóðlegri vísindaumræðu.138 Hvörfin á ferlinum eru þó ekki eins
134 Þorvaldur Thoroddsen, „Fáeinar athugasemdir um skynjan og skilningarvit“, And-
vari 1/1909, bls. 82–102, hér bls. 97.
135 Þorvaldur Thoroddsen, „Vísindalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans“,
Eimreiðin 2/1910, bls. 77–102, hér bls. 87–88. Hér er vitnað í annan hluta greina-
flokksins, sem birtist í þremur fyrstu heftum Eimreiðarinnar 1910.
136 Sama rit, bls. 101.
137 Vangaveltur Þorvaldar um slíkar spurningar og takmörkun vísindalegrar þekkingar
má rekja til kynna hans af skrifum sálfræðingsins Wilhelms Wundt, lífeðlisfræð-
ingsins Emils du Bois-Reymond og líffræðingsins og heimspekingsins Jakobs von
Uexküll, sjá Steindór J. Erlingsson, „Hugmyndaheimur Þorvalds Thoroddsens
1872–1911“, bls. 363–365 og Steindór J. Erlingsson, „inngangur“, bls. 61–63.
138 Steindór J. Erlingsson, „Hugmyndaheimur Þorvalds Thoroddsens 1872–1911“,
bls. 363. Um leið og Þorvaldur leggur áherslu á nauðsyn þess að rannsaka „sálar-
flækjur og takmarkanir mannlegs hyggjuvits“, sér hann ástæðu til að aðgreina
slíkar rannsóknir skilyrðislaust frá hinu „ameríkanska spíritistahumbug“. Þorvaldur
Thoroddsen í bréfi dagsettu 27. febrúar 1906, hér vitnað eftir sama riti, bls. 363.
Fordæming Þorvaldar á spíritismanum kallast með athyglisverðum hætti á við
mælskulist Nýals.
BenediKt HjaRtaRSon