Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 160
159
afdráttarlaus og virðist í fyrstu. Skrefið í átt til markhyggju og lífhyggju er
að mörgu leyti röklegt framhald af úrvinnslu hans á hugmyndum Haeckels
í fyrri skrifum um þróunarkenninguna og segja má að í greinaflokknum frá
1910 „komi skýrt fram sú hughyggja sem alltaf virðist hafa blundað í huga
hans“.139 Þannig var „nokkur vegur milli hugmynda Haeckels og Darwins
um orsakir þróunarinnar“ og ástæðan „var m.a. sú að, ólíkt Darwin, sá
Haeckel skýra stefnu í þróun lífsins, með manninn á toppnum“.140 Í skrif-
um Haeckels gegndi „sálin“ ennfremur veigamiklu hlutverki, þótt hún væri
skilgreind sem „efnislegt fyrirbæri“, og í raun má lýsa kenningum hans
sem „samblandi efnishyggju, rómantískrar hughyggju og algyðistrúar“.141
Eins og Haeckel kemst að orði í lykilriti sínu um „heimsgáturnar“, „renna
tvö hugtök trúarbragðanna og vísindanna saman í eitt í algjörlega skýrri
og rökréttri skoðun einhyggjunnar“.142 Fræðimenn hafa jafnvel gengið svo
langt að kalla Haeckel „sýndar-darwinista“, í ljósi þess að hann „blandaði
kenningu Darwins um náttúrlegt val við þróunarhugmyndir Lamarcks og
svipgerðarfræði Goethes“.143
Þegar horft er til úrvinnslu Þorvaldar á hugmyndum Haeckels um ein-
ingu anda og efnis er fróðlegt að grípa niður í óútgefinn texta sem hann
ritar upp úr aldamótum, þar sem finna má útfærslu á þeirri hugmynd, sem
rekja má til náttúruspeki, að einskonar „frumlíf“ geti kviknað í alheim-
inum og muni „vegna þróunarferlisins geta af sér meðvitað líf“.144 Í text-
anum segir:
Óteljandi stjörnugrúi skapast og hverfur en alltaf er lífið einhver-
staðar á hnöttunum. Efnið er eilíft, breytir myndum en týnist aldrei.
Ný lífskveikja vaknar er önnur hverfur, á þeim hnöttum sem eru
orðnir svo úr garði gerðir að líf getur þróast, fer smátt og smátt að
139 Steindór J. Erlingsson, „inngangur“, bls. 63.
140 Steindór J. Erlingsson, „Landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi, 1872–1910“,
Arfleifð Darwins, bls. 73–95, hér bls. 86–87.
141 Steindór J. Erlingsson, „Hugmyndaheimur Þorvalds Thoroddsens 1872–1911“,
bls. 367.
142 Ernst Haeckel, Die Welträthsel. Gemeinverständliche Studien über Monistische Philo-
sophie, Bonn: Emil Strauß, 1902 [1899], bls. 383.
143 Steindór J. Erlingsson, „inngangur“, bls. 46. Í umfjöllun sinni um „sýndar-
darwinisma“ Haeckels vísar Steindór (sama rit bls. 44) til rits Peters J. Bowler, The
Non-Darwinian Revolution. Reinterpreting a Historical Myth, Baltimore og London:
Johns Hopkins University Press, 1988, bls. 76–90.
144 Steindór J. Erlingsson, „Hugmyndaheimur Þorvalds Thoroddsens 1872–1911“,
bls. 359.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“