Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Síða 172
171
sálina eða alheimsandann, sem rekja má til nýplatonskrar hefðar. Loks
hefur Bowler bent á það mikilvæga hlutverk sem kenningin um ljósvakann
gegndi við að endurskilgreina undirstöður vísindalegrar efnishyggju um
aldamótin 1900. Ljósvakinn lá á „flöktandi mörkum hughyggju og efnis-
hyggju“ og var bundinn „heildrænni sýn“ á efnisheiminn, sem gerði ráð
fyrir að öll brot náttúrunnar „orkuðu á öll önnur“.181 Þannig hvíldi ljós-
vakinn á „heimssýn efnishyggjunnar“, en efnisheimurinn var skilgreindur
sem magnþrungið eða „ríkulegt inntak er gat þjónað sem grundvöllur fyrir
heildstætt og guðfræðilegt sjónarhorn“.182
Ljósvakakenningin og starfsvalskenning ný-lamarckismans, sem mynda
tvær meginstoðirnar í vísindalegri ígrundun nýalsspekinnar, styðja þann-
ig að nokkru leyti hvor við aðra. Gildi þeirra beggja innan alþýðlegrar
vísindaumræðu fólst ekki síst í því, að þær gáfu færi á að flétta saman
vísindalegri þekkingu og frumspekilegri, guðfræðilegri eða dulspekilegri
íhugun. Staða þeirra gagnvart ríkjandi vísindahugmyndum er þó ólík á
ritunartíma Nýals: kenningin um ljósvakann þokast einmitt á þessum tíma
af sviði gjaldgengrar vísindaþekkingar yfir á svið hjávísinda og hjarir þar
áfram í orðræðu dulrænna fræða, kenningar ný-lamarckismans eru aftur á
móti umdeildar en þó enn fyllilega gjaldgengar innan alþýðlegrar vísinda-
umræðu. Tilkall nýalsspekinnar til vísindalegs þekkingargildis á grundvelli
ljósvakakenningarinnar er m.ö.o. orðið býsna haldlítið ef ekki haldlaust
frá vísindalegu sjónarmiði um leið og Nýall kemur út, en kenningar ný-
lamarckismans veita nýalsspekinni nokkra vísindalega undirstöðu fram á
fjórða áratuginn, þótt útfærsla Helga á líffræðikenningum ný-lamarckism-
ans sé óneitanlega framsækin í ýmsu tilliti. Þegar ný-lamarckisminn þokast
út á jaðarinn og lendir að lokum utan vébanda þeirrar vísindaþekkingar
sem telst gjaldgeng undir lok fjórða áratugarins, er vísindaleg ígrundun
nýalsspekinnar endanlega brostin. Í kjölfarið má segja að nýalsspekin for-
herðist í eigin dulrænu og launhelgum, þegar þær kenningar sem mynda
vísindalega undirstöðu hennar eru fallnar úr gildi en eftir standa úreltar
vísindahugmyndir sem virðast fremur vera afsprengi hugaróra, átrúnaðar
181 Peter J. Bowler, Reconciling Science and Religion, bls. 90. Einkennin sem hér er vísað
til koma m.a. skýrt fram í lýsingu Þorvaldar Thoroddsen á ljósvakanum sem „hugs-
uðu, óendanlegu, smágerðu efni“ sem „enginn [svo] vísindi hafa getað handsamað“
og sem „óveganlegum, en um leið ótrúlega þanþolnum, fjaðurmögnuðum og
teygjan legum og þó óhreyfanlegum í heild sinni“. Þorvaldur Thoroddsen, „Vís-
indalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans“ [1. hluti], Eimreiðin 1/1910, bls.
1–13, hér bls. 11–12.
182 Sama rit, bls. 90.
„MAGNAN AF ANNARLEGU ViTi“