Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 188
187
tessel M. Bauduin
Að sjá og sýna hið ósýnilega
Um nútímalist og andleg verk Hilmu af Klint
Inngangur að þýðingu
Tessel M. Bauduin er lektor í nútíma- og samtímalistasögu við Háskólann
í Amsterdam og hefur á síðastliðnum árum birt fjölda fræðilegra greina um
áhrif dulspekilegra hugmynda á nútímalist. Í brennidepli rannsókna hennar
er hreyfing súrrealista og er í því samhengi einkum vert að benda á lykilrit
hennar um súrrealisma og dulspeki, Surrealism and the Occult, sem kom út
árið 2014.1 Greinin sem hér birtist í íslenskri þýðingu er frumsamin fyrir Ritið
og fjallar um verk sænska listmálarans og miðilsins Hilmu af Klint. Bauduin
setur verkin í samhengi við menntun, samfélagsstöðu og kyngervi listakon-
unnar, en þó einkum við andlega heimsmynd hennar og starf sem spíritískur
miðill. Þekktustu verk af Klint, Musterismálverkin (1905–1908, 1912–1915),
voru unnin í miðilsleiðslu og undir sterkum áhrifum frá kenningum spír-
itisma og guðspeki og í raun má lesa þau sem myndlýsingu á vegferð af Klint
í átt að andlegri uppljómun. Með verkunum verður róttæk breyting á pers-
ónulegu myndmáli listakonunnar, sem hafði hingað til málað í klassískum
akademískum stíl en tók nú að vinna með óhlutbundin form. Bauduin bendir
á að listfræðingar og sýningastjórar hafi hneigst til að líta framhjá þeim áhrif-
um sem dulspekiiðkun margra listamanna hefur haft á inntak verka þeirra og
fjalla frekar um slíka ástundun sem ævisöguleg smáatriði. Hún bendir á að
umfjöllun um verk af Klint sé að mörgu leyti lýsandi dæmi um þessa hneigð.
Sé ætlunin að öðlast skilning á verkum af Klint, telur Bauduin hins vegar
ekki vænlegt til árangurs að einblína á formfræðileg einkenni þeirra: í augum
listakonunnar var sá æðri veruleiki sem hún sá og sýndi í verkum sínum ekki
1 Tessel M. Bauduin, Surrealism and the Occult. Occultism and Western Esotericism in
the Work and Movement of André Breton, Amsterdam: Amsterdam University Press,
2014.
Ritið 1/2017, bls. 187–224