Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 189
188
burðargrind fyrir formrænar tilraunir í málun heldur blákaldur veruleiki sem
henni bar, bæði sem listamanni og sem miðli, skylda til að rannsaka og deila
með umheiminum.
Það hefur löngum verið hlutverk listamanna að rannsaka bæði hinn ytri
heim og innri veruleika mannsins. Upp úr aldamótunum 1900, þegar af Klint
og fleiri listamenn hófu að gera tilraunir með óhlutbundin form, höfðu þessir
heimar sem voru til rannsóknar tekið stórfelldum breytingum. Nútímavæðing
Evrópu hafði náð fullu skriði á öldinni á undan og segja má að hún hafi staðið
á einskonar hápunkti við aldahvörfin. Evrópumenn bjuggu nú í iðnvæddum
kapítalískum borgarsamfélögum með stétta- og kynjapólitík sem var alls ólík
því sem áður hafði þekkst. Þjóðríkið hafði öðlast stöðu sem mikilvægur hluti
af sjálfsmynd einstaklingsins og jafnvel einstaklingurinn sjálfur sem sjálfstæð
hugvera var frekar nýr af nálinni. Að auki höfðu hin evrópsku heimsveldi náð
að teygja sig um mestallan hnöttinn og þannig höfðu Evrópubúar nú greiðari
aðgang að þekkingu á heiminum utan Evrópu en nokkru sinni fyrr.2 Þessar
sviptingar, sem stöfuðu að miklu leyti af umbyltingum á sviði vísinda og tækni,
breyttu ekki aðeins lífsháttum hins almenna Evrópubúa heldur hreinlega skiln-
ingi hans á því hvernig alheimurinn væri samsettur. Eins og Bauduin bendir á
urðu uppgötvanir á borð við röntgengeislun og uppbyggingu atómsins til þess
að Evrópubúar þurftu að endurmeta hugmyndir sínar um efnisheiminn.3
Um allar þessar breytingar liggja þræðir sterkrar skynsemishyggju sem
var tekin í arf frá upplýsingunni, ásamt framfarahyggju og trú á altæka þekk-
ingu. Saman lögðu þessar hugmyndir grunn að heimssýn sem hverfðist um
hinn skynsama mann er öðlaðist síaukna þekkingu og skilning á heiminum.
Samhliða „skynsemisvæðingunni“ glötuðu hefðbundnar trúarstofnanir á borð
við hina kristnu kirkju menningarlegu forræði sínu að miklu leyti og jafnt
almenningur og menntamenn urðu sífellt meira efins um að æðri sannleika
væri að finna innan hefðbundinna trúarbragða, en þetta ferli kenndi þýski hag-
fræðingurinn og félagsfræðingurinn Max Weber við afhelgun eða töfrasvipt-
ingu [þ. Entzauberung] heimsins. Hin afhelgaða heimsmynd varð uppspretta
bæði bjartsýni og nokkurskonar sammannlegs sjálfstrausts í evrópskum sam-
2 Sjá t.a.m. Stuart Hall, David Held, Ron Hubert og Kenneth Thompson (ritstj.),
Modernity. An Introduction to Modern Societies, Malden, Massachusetts: Blackwell,
1996. Þessi þekking var vissulega oftar smíðuð af – eða í það minnsta sniðin að –
hinu evrópska ímyndunarafli en hún var numin í nýlendunum, en hún átti engu að
síður drjúgan þátt í að umbylta heimssýn Evrópubúa.
3 Um samband nýrra vísindauppgötvana, dulspeki og nútímalistar hefur Bauduin
fjallað nánar í greininni „Science, Occultism, and the Art of the Avant-Garde in
the Early Twentieth Century“, Journal of Religion in Europe 1/2012, bls. 23–55.
teSSel M. Bauduin