Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Qupperneq 190
189
félögum en olli jafnframt óöryggi, angist og jafnvel ákveðinni framfaraþreytu.
Mörgum fannst hinn afhelgaði heimur holur og merkingarlaus og vantreystu
þeirri stórsögu upplýsingarinnar að með skynsemina að leiðarljósi gæti mann-
kynið, upp á eigin spýtur, fundið leið til frelsunar.
Upp úr aldamótunum þurftu andlega sinnaðir Evrópubúar því annars
vegar að vinna úr vantrausti á að hægt væri að finna lífinu tilgang með harðri
skynsemishyggju og hinsvegar úr nýrri von um að mannleg skynsemi gæti
orðið verkfæri til að kanna og skilja andlegar víddir. Úr þessum jarðvegi
spruttu fjölmargar hreyfingar sem reyndu á ólíkan hátt að steypa saman vís-
inda- og skynsemishyggju annars vegar og andlegri þekkingarleit hins vegar.
Hreyfingarnar hafa verið kallaðar endurhelgunarhreyfingar þar sem þær leit-
uðust við að veita afhelgun heimsins viðnám,4 en tilgangurinn var þó ekki
afturhvarf til fyrri tíma. Markmiðið var öllu heldur að hafa áhrif á framtíðar-
þróun samfélagsins – að rannsaka hina duldu heima, sem virtust fyrst nú
vera innan seilingar, og skapa framtíðarsamfélag er væri í snertingu við hið
andlega eða heilaga.5 Endurhelgunarhreyfingar nútímans byggðu hugmyndir
sínar oft á grunni eldri dulspekihefða, svo sem ólíkum afbrigðum galdratrúar,
kabbalafræðum og gullgerðarlist, en áttu það sameiginlegt að reyna að byggja
á þeim grunni andlega heimsmynd er betur samrýmdist hugarfari nútímans.
Eins og Bauduin bendir á leituðu margar endurhelgunarhreyfingar einn-
ig í smiðju vísindanna. Í sumum tilvikum voru vísindakenningar lagaðar að
þörfum og forsendum dulspekinnar en í öðrum voru þær dulspekilegar að
upplagi, enda tengslin á milli vísinda og dulfræða flókin og á köflum óljós á
þessum tíma.
Þær dulspekikenningar sem höfðu hvað mest áhrif á heimsmynd af Klint
voru spíritismi, guðspeki Helenu P. Blavatskij og síðar mannspekin eða
anþrópósófían. Eins og Bauduin bendir á var ein meginstoð spíritismans sú að
hægt væri að sýna fram á tilvist hinna andlegu sviða, þá helst með kraftbirt-
ingum á miðilsfundum. Þar má sjá vilja til að skoða með kerfisbundnum hætti
hulda heima sem áður höfðu talist liggja utan sviðs skynsemi og vísindalegra
rannsókna. Hvað guðspeki varðar er hægt að tala um tilvist guðspekilegra
hugmynda í Evrópu allt aftur á fornöld, en sú nútímaguðspeki sem af Klint
vann með hefst með stofnun Guðspekifélagsins árið 1875. Félagið var stofnað
4 Sjá t.a.m. Alex Owen, The Place of Enchantment. British Occultism and the Culture
of the Modern, Chicago og London: University of Chicago Press, 2004 og Arthur
Versluis, Restoring Paradise. Western Esotericism, Literature, Art, and Consciousness,
Albany: State University of New York Press, 2004.
5 Alex Owen, The Place of Enchantment, bls. 15.
Að SJÁ OG SÝNA Hið ÓSÝNiLEGA