Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 202
201
þar á meðal vinkonu hennar, listamanninum Önnu Cassel (1860–1936),
hóp kristinna spíritista sem kallaðist Fimmmenningarnir eða „De Fem“.40
Fimmmenningarnir héldu miðilsfundi sem sóttu innblástur í miðilsfundi
spíritista, þar sem þær iðkuðu ósjálfráða skrift og teikningu, en slíkt hafði
þekkst frá sjötta áratug aldarinnar og hafði, nærri frá upphafi, verið snar
þáttur í starfsemi spíritista.41 Á fundum Fimmmenninganna höfðu nokkrir
andar eða æðri verur samband við þær, en þeir mikilvægustu kölluðu sig
„Gregor“, „Clemens“, „Amaliel“, „Anöndu“ og „Esther“.42 Þetta voru
eins konar kennarar og kölluðust „Meistararnir“ (s. „De Höga“).43 Þau
veittu Fimmmenningunum „handleiðslu“ í tíu ár.44 Spíritísk starfsemi
Fimmmenninganna var nokkuð óvenjuleg: ein manneskja var í hlutverki
miðils hverju sinni og kom skilaboðum áleiðis en önnur skrásetti það sem
sagt var og teiknaði einnig síðar, ólíkt því sem almennt tíðkaðist innan
spíritisma, þar sem miðillinn gegndi báðum þessum hlutverkum.45 Þetta
gerði af Klint fært að taka virkan þátt án þess að þurfa einnig að teikna,
en í fyrstu kaus hún það frekar. Um 1905 urðu aftur á móti gagngerar
breytingar þegar einn andanna fól henni verkefni. Þetta verkefni – eða
öllu heldur Verkefnið – var að mála Musterismálverkin [s. Målningarna till
40 Í hópnum voru einnig Cornelia Cederberg, Sigrid Hedman og Mathilde N. (ætt-
arnafn óþekkt). Kristni og spíritismi áttu oft ágætis samleið, vegna þess að í augum
margra auðgaði spíritisminn einfaldlega þá trú sem þeir áttu sér fyrir. Sjá Rachel
Oberter, „Esoteric Art“, bls. 222. Hver fundur Fimmmenninganna hófst og honum
lauk með bænum og Biblíulestri.
41 iris Müller-Westermann, „Paintings for the Future“, bls. 41; Anna Maria Bernitz,
„Hilma af Klint and the New Art of Seeing“, bls. 591. Súrrealisminn átti eftir að
eigna sér og festa í sessi hið ósjálfráða sem listræna tækni í byrjun þriðja áratugar
tuttugustu aldar, sjá Tessel M. Bauduin, „The „Continuing Misfortune“ of Au-
tomatism in Early Surrealism“, Communication + 1 4/2015, bls. 1–42, hér bls. 4 og
26.
42 iris Müller-Westermann, „Paintings for the Future“, bls. 41; G. af Klint, „Hilma
af Klint“, bls. 7; Ulf Wagner, „The Great Mission“, Adam Fuss & Hilma af Klint.
Kallelser/Callings, ritstj. Hasse Persson, Borås: Borås Kunstmuseum, 2011, bls.
36–43, hér bls. 40. Nafnið „Amaliel“ gæti verið færeyskt að uppruna og þannig
framandi norrænt. Það er þó einnig englanafn úr kabbalafræðum, en listar yfir slík
nöfn voru víða í umferð innan dulspekihreyfinga.
43 Anna Maria Svensson, „The Greatness of Things“, bls. 16. Í guðspekilegri kenn-
ingasmíð voru „duldir meistarar“ eða mahatmar höfuðmiðlar opinberunarinnar.
Samskipti Fimmmenninganna við „Meistara“ frekar en við anda látinna – í spírit-
isma var hið fyrrnefnda ekki óalgengt en hið síðarnefnda viðteknara – gefur til
kynna samruna spíritískra og guðspekilegra hugmynda.
44 Anna Maria Svensson, „The Greatness of Things“, bls. 16.
45 Sama rit, bls. 16.
Að SJÁ OG SÝNA Hið ÓSÝNiLEGA