Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 229
228
Áður en lengra er haldið ætti ég kannski að taka eitt lítið dæmi, svo
lesandinn fái einhverja hugmynd um hvað ég meina. Í grein sinni í
Ritröð Guðfræðistofnunar rekur Guðni ekki málavöxtu sérstaklega en vísar
í neðanmálsgrein í fjórar heimildir þar sem það er gert:7 Blogg Hörpu
Hreinsdóttur, þar sem mikið hefur verið skrifað um málið, blaðagrein
Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu, viðtal Daggar Harðardóttur við
Bjarna Randver í tímaritinu Bjarma og greinar eftir sjálfan sig. Allar þessar
heimildir eru hlutdrægar, umdeildar eða byggja beinlínis á sjónarmiðum
Bjarna Randvers og stundum allt í senn: greinar Hörpu eru til að mynda
mjög umdeildar meðal Vantrúarfélaga, blaðagrein Barkar byggðist að
mestu á upplýsingum frá Bjarna Randveri sjálfum, auk þess sem ein heim-
ildanna er beinlínis viðtal við Bjarna. Loks eru það greinar Guðna sjálfs.
Umfjöllun Barkar og Hörpu um málið er mjög umdeild og hafa
Vantrúarmenn skrifað margar greinar þar sem þeirra túlkun á málavöxtu
er mótmælt, auk greina þar sem félagsmenn greina frá sínum sjónarmið-
um.8 Guðni sér ekki ástæðu til að benda lesandanum, sem líklega þekkir
málið illa, á að þessar heimildir séu til og að til séu aðrar heimildir þar sem
hans heimildum er mótmælt. Guðni vísar lesandanum með öðrum orðum
einungis á heimildir þar sem sjónarmið Bjarna eru í forgrunni, þrátt fyrir
að vita af öðrum sem segja aðra sögu.
Hér er ég auðvitað ekki að segja að þessar heimildir sem ég nefni fari
rétt með en hinar rangt – en að láta eins og þær fyrrnefndu séu ekki til eru
vond vinnubrögð. Né heldur er það skoðun mín að höfundur fræðilegs
verks megi ekki taka afstöðu, heldur að hlutlægni sé fræðileg dyggð og
hlutdrægni löstur. Það er að sjálfsögðu gott, og að mörgu leyti nauðsyn-
legt, að fræðimaður taki afstöðu, jafnvel eindregna afstöðu. Sú afstaða
þarf hins vegar að vera rökstudd og sá rökstuðningur lesandanum ljós. Að
handvelja með þessum hætti heimildir sem styðja hans eigin málstað en
hunsa þær sem benda í aðra átt er gott dæmi um hvernig Guðni leitast við
að sýna það sem staðfestir þá tilgátu sem hann leggur upp með í upphafi
7 Guðni Elísson, „Britney fokkíng Spears“, bls. 19, neðanmálsgrein 9. Sjá Harpa
Hreinsdóttir, „Vantrú gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni: Mál 1/2010 fyrir Siða-
nefnd HÍ“, harpahreins.com, 27. febrúar 2012, sótt 15. september 2015 af http://
harpahreins.com/vantru_gegn_bjarna_randveri.pdf, , Dögg Harðardóttir, „Ósigur
Vantrúar: Kæruherferðin gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara í HÍ“,
Bjarmi 2/2013, bls. 22–35, Börkur Gunnarsson „Heilagt stríð Vantrúar“, Morg-
unblaðið, 4. desember 2011 og Guðni Elísson, „Í heimi getgátunnar“.
8 Sjá t.d. Ritstjórn Vantrúar, „Um ,Heilagt stríð‘ og ,einelti‘ Vantrúar“, vantru.is, 29.
desember 2011, sótt 15. september 2015.
ÁSGeiR BeRG MattHíaSSon