Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 234
233
aður. Þetta er ekki kennsla, þetta er áróður.“24 Óli bætir þá við: „Ég held
að fyrir Háskóla Íslands sé það bara nauðsyn að við kærum.“25 Snæbjörn
Guðmundsson tekur undir með honum og segir:26
Sammála. Þetta á að heita kennsla á háskólastigi, en er bara róg-
burður og ærumeiðingar í garð ákveðins hóps fólks. Það skiptir ekki
máli hvort verið sé að fjalla um Vantrú eða ef e-r annar hópur væri
tekinn fyrir, svona lagað á einfaldlega ekki að líðast innan veggja
Háskólans. Hvað ef svona væri fjallað um gyðinga eða múslima?
Mér finnast þetta vera nánast sambærileg skrif og hatursskrif gagn-
vart öðrum trúarhópum.
Hann bætir svo við: „Ég er bálreiður, ekki einungis vegna Vantrúar heldur
líka fyrir hönd Háskólans, svona verður að stöðva og koma í veg fyrir með
öllum tiltækum ráðum.“27 Loks segir Matthías Ásgeirsson: „Ég er alveg til
í að kvarta opinberlega. Mér finnst satt að segja ótrúlega gróflega að mér
vegið þarna.“28
Í þessum samræðum birtist ekki sú mynd sem Guðni dregur upp af
Vantrúarmönnum; af mönnum sem vilja stjórna því hvernig talað er um
þá innan háskólasamfélagsins og beita öllum meðölum til að koma höggi á
saklausan stundakennara, heldur af fólki sem raunverulega þótti að sér vegið
og blöskraði þau vinnubrögð sem það taldi sig hafa orðið vitni að, og loks
afréð að leita réttar síns eftir viðurkenndum leiðum innan Háskólans sjálfs.
Hér held ég því auðvitað ekki fram að félagsmenn Vantrúar séu hvít-
skúraðir englar sem einungis stjórnist af óeigingjörnum hvötum og um-
hyggju fyrir orðspori Háskóla Íslands, alls ekki. Heldur held ég því ein-
faldlega fram að sú hvatarýni sem Guðni stundar í greinum sínum eigi
ekki heima í fræðilegri umræðu og hefðu ritrýnar átt að gera við þetta
alvarlegar athugasemdir. Þetta gengur svo langt að í greinum Guðna eru
gjarnan langir kaflar sem innihalda nánast engin rök af neinu tagi, heldur
einungis gildishlaðna lýsingu á málinu og tildrögum þess, auk furðulegra
vangaveltna um hug og ætlun helstu leikenda – sem jaðrar á stundum við
skáldskap.
24 Reynir Harðarson, „SBR“, 22:05 1. október 2009.
25 Óli Gneisti Sóleyjarson, „SBR“, 22:30 1. október 2009.
26 Snæbjörn Guðmundsson, „SBR“, 00:33 2. október 2009. Það sem Snæbjörn vísar
til sem „rógburðar og ærumeiðinga“ eru glærur Bjarna Randvers um Vantrú.
27 Snæbjörn Guðmundsson, „SBR“, 00:33 2. október 2009.
28 Matthías Ásgeirsson, „SBR“, 10:35 2. október 2009.
AF AðFERð CHOMSKYS OG ViNNUBRÖGðUM GUðNA ELÍSSONAR