Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Blaðsíða 235
234
Ofangreind orð Vantrúarfólks sýna hins vegar að þeir sem tjáðu sig
þarna í upphafi málsins virðast í raun og veru hafa talið að í kennslu Bjarna
Randvers fælist brot á siðareglum Háskóla Íslands og að hagsmunir skól-
ans fælust í því að hindra að slíkt kæmi fyrir aftur, fremur en að hafa séð
tækifæri til að koma höggi á andstæðinga sína, þvert á þá mynd sem Guðni
dregur upp – og allra síst að þeir hafi með kærum sínum og málflutningi
reynt að stöðva ákveðna fræðilega umræðu innan skólans, en hann heldur
því einmitt fram að viðbrögð þeirra hafi verið svar við fræðilegri greiningu
Bjarna á félaginu.29 Sú mynd er einhliða og villandi þar sem hann getur sér
til um hver markmið þeirra gætu hafa verið og styður þessar getgátur sínar
með því að tína út afmarkaðar tilvitnanir sem virðast styðja þær.30 Þó leyfir
Guðni sér að halda fram fullyrðingum sínum um hug og ætlan helstu leik-
enda af fullkominni vissu og án þess að bera á borð fyrir lesandann þau orð
þeirra sem ekki styðja hans túlkun – orð sem hann veit þó fullvel af. Þetta
er einkar vandræðalegt í ljósi þess að hann sakar Vantrúarmenn ítrekað um
að þykjast of fullvissir í sinni sök miðað við þau gögn sem þeir hafa og að
hans eigin aðferð, aðferð Chomskys, á samkvæmt honum sjálfum að vera
til þess fallin að „sýna hvernig lykilfullyrðingar eru byggðar á getgátum“,
„hvernig sönnunargögnum er ýtt til hliðar í nafni sérhagsmuna, hvernig
þau eru rangtúlkuð, ekki rædd“ og „gagnrýna hentistefnu og hræsni“.
Guðni eyðir auðvitað líka töluverðu púðri í að verja kennslu Bjarna
Randvers gegn raunverulegum ásökunum Vantrúarmanna, en það er allt
annað mál. Það var sú vörn sem mér þótti ófullnægjandi þegar ég skrifaði
upphafleg innlegg mín og byggist hún, eins og ofangreint, að miklu leyti á
því sama: Að fela fyrir lesandanum mikilvæg gögn og draga ályktanir fyrir
hans hönd um hluti sem höfundurinn gjörþekkir en lesandinn ekki – enn
í trássi við þá aðferð Chomskys sem Guðni þykist beita. Svör Guðna við
gagnrýni minni voru svo enn sama marki brennd, enda snýr hann algjör-
lega út úr því fáa sem hann beinlínis hefur eftir mér en hunsar megnið af
því sem ég hafði fram að færa.
29 Sjá t.d. Guðni Elísson, „Fúsk, fáfræði, fordómar?“, bls. 140–141.
30 Hér er ég þó alls ekki að segja að það sé sjálfgefið að Siðanefnd hefði átt að úrskurða
gegn Bjarna í málinu né að rétt hafi verið af Vantrúarfélögum að leggja upp í mála-
reksturinn í upphafi. Enn síður er ég að halda því fram að akademískt sjálfstæði sé
ekki mikilvægt og að úrskurðir Siðanefndar geti ekki haft þar neikvæð áhrif. Hins
vegar helgar tilgangurinn ekki meðalið.
ÁSGeiR BeRG MattHíaSSon