Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Page 245
244
heldur var hann orðinn að lýsingu á orðum annarra og leið inn í „flókið
fræðilegt samhengi“ – og það þrátt fyrir að höfundurinn sjálfur hafi látið
hafa það eftir sér að svo sé ekki. Er þetta hin heilbrigða skynsemi sem
aðferð Chomskys krefst?
Í vörn sinni fyrir þessi vinnubrögð Bjarna er Guðna tíðrætt um greinar-
gerðir sérfræðinga og háskólamanna annars vegar og vitnisburð nemenda
um kennslu Bjarna Randvers hins vegar. Ef tilurð þessara greinargerða og
sú aðferð sem notuð var við að safna vitnisburðum nemenda eru hins vegar
skoðaðar, kemur í ljós að þau gögn orka mjög tvímælis. Til að mynda voru
greinargerðirnar að sögn byggðar á 197 síðna greinargerð um málið sem
Bjarni sjálfur hafði samið,58 auk þess sem svo virðist sem Guðni sjálfur
hafi valið þá háskólakennara og sérfræðinga sem gáfu álit sitt á málinu
og lét þeim í té öll gögn. Að minnsta kosti fékk enginn félagsmaður í
Vantrú nokkru sinni að koma á framfæri athugasemdum sínum við samn-
ingu greinargerðanna né á neinu öðru stigi málsins. Það er lítið að marka
svo einhliða gögn.
Að sama skapi var nemendum Bjarna Randvers ekki gert kleift að koma
athugasemdum sínum á framfæri nafnlaust. Athugasemdir af þessu tagi eru
að sjálfsögðu marklausar ef þær eru undir nafni, því þeir nemendur sem ann-
ars hefðu viljað veita kennara sínum neikvæða umsögn hika auðvitað við það
ef nöfn þeirra og orð eru öllum kunn, einkum og sér í lagi ef um er að ræða
svo viðkvæmt mál sem líklegt megi telja að margir innan deildarinnar hafi
sterka skoðun á.59 Hér er ég alls ekki að segja að umsagnir þeirra nemenda
sem þó tjáðu sig séu marklausar í sjálfu sér heldur að vinnubrögðin í heild
varpi rýrð á það sem við getum lært af þeim – ef umsagnir nemenda eru pers-
ónugreinanlegar er það í sjálfu sér sía á hvers konar umsagnir koma fram.
58 Þetta kom fram í upphaflegum umræðum okkar á Facebook. Athugasemd Guðna
má finna hér: https://www.facebook.com/gudrunelsa/posts/10201997029351229?-
comment_id=7102322.
59 Umsögn eins nemanda er þó áhugaverð, en það eru orð Davíðs Þórs Jónssonar, sem
er nú sóknarprestur í Laugarneskirkju. Hann segir: „Bjarni Randver lagði áherslu
á að akademísk skoðun á hópum af þessu tagi þyrfti að eiga sér stað með samtali
við fylgismenn þeirra. Aðeins með því móti mætti gera sér marktæka grein fyrir
sjálfsmynd þeirra og afstöðu til umhverfisins, en niðurstaða slíkrar skoðunar væri
með öllu ómarktæk færi samtalið ekki fram af algjöru fordómaleysi.“
Það er að sjálfsögðu ástæða til að taka undir þessi orð. Bjarni Randver hefur samt
aldrei, hvorki áður en málið hófst né síðar, reynt að eiga neitt samtal við meðlimi
Vantrúar. Með öðrum orðum: nálgun Bjarna Randvers að efninu var, samkvæmt
hans eigin mælikvörðum, ábótavant.
ÁSGeiR BeRG MattHíaSSon