Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2017, Side 252
251
Aukasetningin er þannig ekki réttlæting á orðunum, eins og Guðni
segir að gagnrýnendur Bjarna haldi fram, heldur órjúfanlegur partur af
því sem við er átt. Þetta virðist kannski smáatriði en munurinn á þessum
tveimur setningum er svipaður og munurinn á því að segja „Mér er illa við
hunda sem gelta og bíta fólk“ og „Mér er illa við hunda“. Hið fyrra skal
ég kannast við, en alls ekki hið síðara, og er hér um gerólíkar setningar að
ræða sem sýndu mig í gerólíku ljósi hefði Bjarni Randver haft þær eftir
mér í kennslu, rétt eins og fordæming Matthíasar á þeim sem hóta sam-
kynhneigðum vist í helvíti segir okkur allt annað um hann en afskræmd
útgáfa Bjarna gerir.
Í raun er svo alls óljóst að Matthías hafi kallað nokkurn mann hálf-
vita eins og Guðni heldur fram, né að þessi orð „lýsi því sem sjálfsögðum
hlut að trúmenn sem hann sé ósáttur við séu „kallaðir hálfvitar““, eins og
Bjarni Randver kemst að orði í greinargerð sinni um málið.75 Að segjast
vera þreyttur á viðbrögðum einhvers þegar hann er kallaður hálfviti er
einfaldlega ekki það sama og að kalla viðkomandi hálfvita.
Ástæða þess að ég skrifaði upphaflegar athugasemdir mínar við grein
Guðna, athugasemdum sem hann hefur nú svarað í löngu máli í tveimur
greinum, var sú að mér fannst upphafleg grein hans í TMM gefa ákaflega
einhliða mynd af þessu umdeilda máli og að Guðni sjálfur væri sekur um
það sem hann sakar aðra um. Mér þótti jafnframt einsýnt að sannleikurinn,
sem Guðni hampar svo mjög í greinum sínum, væri ekki jafn einhlítur og
hann lét í veðri vaka og að umfjöllun hans og efnistök væru ákaflega hlut-
dræg – svo ekki sé fastar að orði kveðið. Greinar hans eru einfaldlega póle-
mík – innlegg í ritdeilu – dulbúin sem fræðigreinar og standast sem slíkar
hvorki þær kröfur sem gerðar eru til fræðilegra verka né þau viðmið sem
hann þó sjálfur setur sér, það sem hann nefnir „aðferð Chomskys“. Eftir
sem áður, þá er það að sjálfsögðu rétt sem Guðni segir í niðurlagi síðustu
greinar sinnar, að í skóla þar sem óþolið ræður ríkjum gerist fátt af viti – en
það er líka mikilvægt að hafa í huga að í skóla þar sem fræðileg vinnubrögð
og heiðarleiki gagnvart lesendum eru ekki höfð fyllilega í heiðri, þar gerist
líka fátt vitrænt.
75 Bjarni Randver Sigurvinsson, „Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir
Siðanefnd HÍ í maí 2010“, bls. 84.
AF AðFERð CHOMSKYS OG ViNNUBRÖGðUM GUðNA ELÍSSONAR