Skírnir - 01.04.2002, Page 12
Frá ritstjórum
Stjórnskipun íslands er ekki ljós í öllum greinum, eins og ráða má af
deilum um forsetavald í áranna rás. í grein sinni „Stofnun lýðveldis - Ný-
sköpun lýðræðis" kannar Svanur Kristjánsson tilurð forsetaembættisins
og reynir um leið að skýra þá þætti stjórnskipunarinnar sem enn valda
misklíð. Þessi stjórnskipun er jafngömul stofnun lýðveldisins, lokaáfang-
anum í baráttu Islendinga fyrir sjálfstæði. Sjálfstæðið er þjóðinni dýr-
mætt. Ekki síst af þessum sökum hefur möguleikinn á aðild að Evrópu-
sambandinu komið mörgum Islendingum í uppnám sem leggja hana að
jöfnu við framsal fullveldisins, en e.t.v. fer þeim fækkandi sem svo hugsa.
Á okkur leita af auknum þunga gamalkunnar spurningar um þjóðerni og
fullveldi, (sér)stöðu okkar í evrópsku samfélagi og gildi sameiginlegs arfs
og viðhorfa. Þýski heimspekingurinn Jiirgen Habermas hefur fært rök
fyrir hugmyndum sínum um sameinaða Evrópu og þær eiga vafalaust er-
indi við okkur, eins og Sigríður Þorgeirsdóttir fjallar um í Skírnismálum.
Enn er grein sem snertir Evrópustjórnmál, eftir Björn Þorsteinsson, sem
leggur út af bók Frakkans Jacques Derrida um marxíska reimleika og van-
mátt evrópsks lýðræðis til að vinna bug á ranglætinu.
Þess er nú minnst að öld er liðin frá fæðingu Halldórs Laxness. Tvær
greinar eru helgaðar honum. Þorleifur Hauksson kannar byltingarkennd-
an ritgerðarstíl skáldsins og tengir hann skáldsagnagerðinni. Helga Kress
lítur hins vegar til tónlistarinnar í verkum hans og tengir hana kvenmynd
eilífðarinnar. Ljóðskáldið Jóhann Jónsson var samtímamaður Laxness. í
Skírnismálum andmælir Þorsteinn Þorsteinsson grein sem Ingi Bogi
Bogason skrifaði í tímaritið fyrir rúmum áratug og fjallar um frægasta
kvæði Jóhanns, „Söknuð". Það er nokkur nýlunda að menn deili um ein-
stök bókmenntaverk í Skírnismálum. íslenskar miðaldir fá sinn skerf í
grein Ármanns Jakobssonar um uppreisn æskunnar, eins og má greina
hana í sögunni af Flóres og Blankiflúr, kunnum æskuelskendum miðalda.
Straumar í heimspeki eru teknir til umræðu í tveimur greinum um
bækur. Ásta Kristjana Sveinsdóttir fjallar um ólíka þætti femínískrar
heimspeki í ljósi bókarinnar Kvenna megin eftir Sigríði Þorgeirsdóttur.
Jón Ólafsson leitast við að skýra heimspekilegan pragmatisma í tilefni af
þýðingu Gunnars Ragnarssonar á tveimur ritum eftir John Dewey.
Skáld Skírnis er Sigfús Bjartmarsson en myndlistarmaður Margrét
Blöndal. Eva Heisler fjallar um list hennar í lokagrein heftisins.
Svavar Hrafn Svavarsson og Sveinn Yngvi Egilsson