Skírnir - 01.04.2002, Page 19
SKÍRNIR STOFNUN LÝÐVELDIS - NÝSKÖPUN LÝÐRÆÐIS 13
augljóslega að í stjórnskipun lýðveldisins yrði að vera samræmi
milli orða stjórnarskrárinnar og athafna þjóðhöfðingjans.
Svipaður hugsunarháttur einkenndi einnig röksemd meirihluta
nefndarinnar varðandi kjör forsetans. I öllum lýðveldum þess
tíma væri forseti annaðhvort kjörinn af þjóðþinginu (ríki Suður-
Ameríku) eða kjósendur veldu kjörmenn sem aftur kysu forseta
(Bandaríki Norður-Ameríku, Finnland). Hvergi kysi þjóðin for-
seta lýðveldisins beinni kosningu. Engin ástæða væri fyrir Islend-
inga að fylgja ekki fordæmi annarra lýðvelda í þessu efni.
Þegar á heildina er litið má segja að tillögur þingnefndarinnar
hafi þjónað ágætlega því markmiði hennar að viðhalda ríkjandi
kerfi, þjóðþingræðinu, eins og frekast var kostur miðað við að
þjóðhöfðingjavaldið yrði innlent samkvæmt nýrri stjórnarskrá.
Einnig ber að hafa hugfast að mörgum þingmönnum, einkum úr
Sósíalistaflokknum og Sjálfstæðisflokknum, fannst sem ríkisstjór-
inn, Sveinn Björnsson, hefði sýnt Alþingi óvirðingu með ýmsum
hætti, eins og vikið verður að síðar. Þá fýsti ekki að hafa valdamik-
inn þjóðhöfðingja.
Allt frá endurreisn Alþingis árið 1843 hafði löggjafarþing
þjóðarinnar verið helsti vettvangur sjálfstæðisbaráttu íslendinga.
Eðlilegt hlýtur því að telja að þingmenn færu ekki að steypa Al-
þingi - og sjálfum sér - af hæsta stalli einmitt þegar hillti undir
fullt sjálfstæði landsins.
Meðal þjóðarinnar kvað hins vegar við annan tón. Þar var til-
lögu nefndarinnar um þingkjörinn forseta illa tekið. Afstaða blaða
og tímarita var mjög eindregin: forsetinn átti að vera þjóðkjörinn.
Alþýðublaðið, Vísir og Þjóðviljinn lögðu ríka áherslu á þjóðkjör-
inn forseta, en Morgunblaðið og Tíminn fjölluðu ekki sérstaklega
um þessa tillögu nefndarinnar. Síðasttöldu blöðin tvö voru þó í
skrifum sínum fremur hlynnt þjóðkjörnum forseta. í nóvember
1943 krafðist flokksþing Alþýðuflokksins þess að forsetinn yrði
þjóðkjörinn.11 í jólahefti tímaritsins Helgafells birtist skoðana-
könnun sem nýstofnað könnunarfyrirtæki gekkst fyrir og var þar
Torfi Ásgeirsson hagfræðingur í forsvari. Niðurstaðan var sú að
11 Alþýðublaðið, 30. nóv. 1943.