Skírnir - 01.04.2002, Page 32
26
SVANUR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ræðis nokkurn sigur á Alþingi, þrátt fyrir að vera þar í miklum
minnihluta. Vilji meirihluta Alþingis, fjölmiðla, ríkisstjórnarinn-
ar, ríkisstjórans og alls almennings var hins vegar mjög skýr og af-
dráttarlaus: í lýðveldinu átti ekki að ríkja alvald Alþingis, þjóð-
þingræði, heldur stjórnskipun sem tvinnaði saman fulltrúalýð-
ræði og beint lýðræði. Með þeim hætti væri íslenska lýðveldið í
raun og sann arftaki lýðræðishefðar Islendinga á þjóðveldistím-
anum.
Greina má sterka samsvörun milli valdastöðu flokkanna og af-
stöðu þeirra til stjórnskipunarinnar. Alþýðuflokkurinn, Fram-
sóknarflokkurinn og Vísisarmur Sjálfstæðisflokksins stóðu veikt á
Alþingi. Þeir höfðu hins vegar fótfestu í ríkisstjórn og í fram-
kvæmdavaldinu í bandalagi við ríkisstjórann. Stuðningur við
valdamikinn forseta var því fullkomlega eðlilegur fyrir þessa aðila
enda höfðu þeir góða reynslu af störfum ríkisstjórans. Staða og af-
staða Sósíalistaflokksins og Kveldúlfsarms Sjálfstæðisflokksins
var hins vegar allt önnur. Þessir aðilar áttu mikla samleið í sjálf-
stæðismálinu og í atvinnumálum. Saman höfðu þeir þingmeiri-
hluta, en Sveinn Björnsson var alla tíð andsnúinn setu sósíalista í
ríkisstjórn. Þeir töldu ríkisstjórann ekki hafa gefið góða raun og
afstaða þeirra til stjórnskipunarinnar var í fullu samræmi við þá
reynslu.
Það er ekki ætlun mín að annarlegar hvatir eða undarlegir
hagsmunir stjórnmálaafla hafi mótað afstöðu þeirra til stjórnskip-
unarinnar. Miklu fremur er það mitt mat, að hin almenna regla í
stjórnmálum sé sú að víxlverkan eigi sér ávallt stað á milli hug-
mynda og hagsmuna og reynslu einstaklinga, hópa og samtaka. I
deilunum um stjórnskipun lýðveldisins sigruðu þau öfl sem töldu
sig hafa slæma reynslu af þjóðþingræðinu en góða af afskiptum
ríkisstjórans af stjórnarmyndun og stjórnarstefnu. Þorri íslensku
þjóðarinnar var sama sinnis. I aðdraganda lýðveldisins mótuðu
mismunandi hagsmunir fólks og ólík reynsla þess tvær lýðræðis-
hugmyndir í landinu. Hugmyndin um beint lýðræði kallaði eftir
forsetaþingræði, en málsvarar fulltrúalýðræðis lögðu til stjórn-
skipun þjóðþingræðis. Hér á eftir verður nánar vikið að hug-
myndabaráttunni á árunum fyrir lýðveldisstofnun.