Skírnir - 01.04.2002, Síða 59
SKÍRNIR VERÖLDIN ER SÖNGUR 53
bókstaflegum skilningi: „Maðurinn er líklega svona tónhneigður
afþví hann á heima í kassa utanaf hljóðfæri, hugsaði ég.“ (212) I
myndmálinu er kassinn jafnframt kista, sem úr hefur verið tekið
píanó og mannslíkami settur í staðinn. Að eigin sögn hefur gamli
söngvarinn „aldrei getað súngið“ (213) og er það sett í eitthvert
óljóst samband við það að hann fékk ekki stúlkuna sem hann
elskaði. Þarna tengist enn konan og tónlistin sem tveir óaðskilj-
anlegir þættir. I söngnum upplifir söngvarinn ástina og heldur
henni hjá sér. Þannig er konan bæði uppspretta söngsins og efni
hans.17 Þennan söng truflar sögumaðurinn/rithöfundurinn með
tali sínu og ritmennskutilburðum og þaggar að lokum endanlega
niður í honum.
I Brekkukotsannál koma átök tónlistar og tungumáls fram í
sögumanninum, annálsritaranum og rithöfundinum Alfgrími, sem
er söngvari meðan hann á heima í moldarhúsinu hjá afa sínum og
ömmu á jaðri heimsmenningarinnar, og heimssöngvaranum Garð-
ari Hólm sem getur ekki sungið eftir að hann er orðinn fullorðinn
og samfélagið hefur keypt hann og gert að útflutningsvöru. I þess-
ari sögu fer fram mikil umræða um tónlist, um fuglatíst, flugnasuð
og klukknahljóm, um raddir og söng. Afinn dregur „seiminn" á
sérstakan hátt þegar hann les Vídalínspostillu,18 og „gömlu kon-
urnar töluðu saman í þessum einkennilega fjarlæga tóni sem er
einsog sláttur í dufli fyrir utan Eingey; eða einsog fiðla norður á
Lánganesi.“ (34)
Söngurinn í Brekkukotsannál tengist mjög jarðarförum og
dauða, líkömum sem sameinast moldinni eftir að hafa lifað. Sögu-
maðurinn/rithöfundurinn lýsir þessu þannig með ritskoðun bók-
menntastofnunarinnar yfir höfði sér:
17 í samtali við mig sumarið 1976 sagðist Halldór hafa haft kvæðið „Meyjarmiss-
ir“ eftir Stefán Ólafsson í huga þegar hann samdi söguna, og einnig lagið við
það sem er gamalt íslenskt þjóðlag. Kvæðið er sagt að Stefán Ólafsson hafi ort
í Kaupmannahöfn þegar hann frétti að unnusta hans hefði brugðið heiti við
hann. Kvæðið er fjögur erindi og hefst svo: „Björt mey og hrein / mér unni ein
/ á ísa- köldu -landi; / sárt ber eg mein / um sinnu rein / sviptur því tryggða-
bandi.“ Sjá Stefán Ólafsson, Kvx5i II, Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bók-
mentafélag, 1886, bls. 37-39.
18 Halldór Kiljan Laxness, Brekkukotsannáll, Reykjavík: Helgafell, 1957, bls. 24.