Skírnir - 01.04.2002, Page 68
62
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Forsöngvarinn „með barkakýlið stóra“ þar „mjúki bassinn"
býr (149) lánar honum nótnabækur með lögum eftir Schubert.
Álfgrímur sem er „raddlaus um þessar mundir“ (152) getur ekki
sungið lögin en æfir sig að spila þau á gamla orgelið hans Garðars
Hólms. Hann er á mörkum barns og fullorðins og spilatímarnir
verða hans manndómsraun. Hann fellur á því prófi.
Eitt skipti þegar hann kemur í tíma stendur Blær á þröskuldin-
um:
Ég ætla ekki að bera mig að lýsa þessum kvenmanni, það kemur ekki
málinu við hvernig hún leit út, enda er ég laungu búinn að gleyma því.
Utlit hennar var í rauninni jafnfjarri því að segja sannleikann einsog orð
mundu vera. í mínum augum var hún ekki aðeins mylnustúlkan fagra og
fiskimærin og smámeyan dapra í trjálundinum, veiðigyðjan ævareiða og
meynunnan; hún var einnig silúngurinn og linditréð, saungurinn á vatn-
inu og litanían; í sem stystu máli Schubert. (153-154)
Blær er tónlistin sjálf, hún er Schubert. Um leið er tónskáldið
kvengert, tónlistin gerð að konu. Forsöngvarinn er ekki heima, og
í stað hans á Blær, tónlistin í konulíki, að taka Álfgrím í tíma.
Hann missir málið, honum sortnar fyrir augum, og hann gleymir
öllu, einnig skalanum, hinu línurétta kerfi:
Það getur ekki verið, sagði hún. Skalanum getur einginn maður
gleymt, því það er bara tónaröðin.
En mér var eiður sær, ég mundi ekki einusinni tónaröðina leingur. Þá
fór hún að hlæa. (154)
í verkum Halldórs Laxness hlæja konur að körlum. Svala í
Heiman eg fór hlær að sögumanni þegar hann gerist fullorðinsleg-
ur og fer að skilgreina hana: „Skellihlátur hennar var eina berg-
málið við fíflsku minni“ (122). I Kristnihaldi undir Jökli hlær Ua
að Umba þegar hann reynir til við hana:
Á dauða mínum átti ég von, hinsvegar ekki því að hún skelti uppúr.
Hún reyndi að vísu að halda afturaf sér í fyrstu, en það gerði ekki nema
ilt verra. Fljótlega slepti hún sér með öllu [...] Ég fékk ekki komið auga
á neina sérstaka ástæðu fyrir slíkum ofsahlátri; má vera að aldrei séu
nein skynsamleg rök fyrir hlátri [...] Er ég svona hlægilegur eða hvað?
(314)