Skírnir - 01.04.2002, Síða 80
74
ÞORLEIFUR HAUKSSON
SKÍRNIR
Enda þótt ritgerðir bókarinnar séu felldar saman í ákveðna
heild eru þær mjög ólíkar innbyrðis. Fyrsta greinin, „Bækur“, er
ekki hefðbundin ritgerð heldur blaðagrein þar sem höfundur
þeysist um sviðið eftir því sem andinn blæs honum í brjóst. Þessi
grein er öll á yfirborðinu, stóryrt, hvatskeytsleg, en þriðja ritgerð-
in, „Um Jónas Hallgrímsson", er aftur á móti eiginleg ritgerð,
byggð upp með ákveðinni stígandi og listrænum áhrifabrögðum.
Hún vekur og viðheldur eftirvæntingu lesandans, er leitandi, inn-
hverf, ljóðræn. Þess má geta að þetta er fyrsta ritgerð Halldórs
sem lýsir skáldi með þeim hætti að leiða lesandann inn í ljóðheim
þess.
I Alþýðubókinni gætir ekki þeirrar tilhneigingar til endursagn-
ar og einföldunar sem greina mátti í mörgum eldri ádeilugreinum.
Orðfæri í þessu boðunarriti er fremur hátíðlegt þegar svo ber und-
ir. Höfundur notar t.d. fornafnið „vér“ allmikið og telja má til
undantekninga ef hann grípur til hversdagslegra orðatiltækja.
Læsileikastuðull bókarinnar er mun hærri en t.a.m. í „Raflýsingu
sveitanna“, eða frá 47 upp undir 60, sem telst afar erfiður texti af-
lestrar í fræðibókum og þarf reyndar ekki að vera í ósamræmi við
stefnu ritsins. Vissulega eiga skáldin að yrkja fyrir alþýðuna að
dómi höfundar; á einum stað segir hann að skáld eigi „helzt ekki
að semja önnur ljóð en hver óbreytt sveitakona getur raulað af
öllu hjarta við börn sín eða yfir húsverkum" (25). En um leið eigi
stjórnvöld og aðrir að stuðla að því með öllum ráðum að fátækar
sveitakonur fái næga menntun til að skilja hin dýpstu snilldarverk.
Sum stórskáld verði þó ekki skiljanleg alþýðu fyrr en „hagjöfnuð-
ur hins komanda þjóðskipulags hefir opnað fjöldanum leiðir til
fullkomnara uppeldis" (26).
Það er ekki mikill munur á höfundarímyndinni í Alþýðubók-
inni og greinaflokkunum frá næstu árum á undan. Sá höfundur
sem þarna birtist er huglægur, er mikið niðri fyrir og tjáir skoðan-
ir sínar umbúðalaust. Lítið er um fyrirvara eða varfærnisorð sem
dragi úr fullyrðingum; hér er allt hispurslaust, afdráttarlaust,
efalaust. Veröldin er séð í svörtu og hvítu; þó að „vér“ eigum að
geta sýnt þann þroska „að geta hlustað, - ekki að eins fjandskap-
arlaust, heldur með djúpri vorkunnsemi á heimska menn og illa, er