Skírnir - 01.04.2002, Side 84
78
ÞORLEIFUR HAUKSSON
SKÍRNIR
einni blaðsíðu.21 Þá er margt um hefðbundin ræðubrögð, m.a.
skírskotanir til dæma úr þjóðarsögunni (exempla), andstæður af
sérstöku tagi („við“ og ,,hinir“) og líkingar á borð við þessa:
Eftir stendur íslenska þjóðin einsog ker sem ómar ekki leingur við áslátt,
af því það stendur ekki leingur einsamalt, heldur hefur ókunn hönd ver-
ið lögð á barm þess.22
Líking einfaldar flókinn heim, stýrir veruleikaskynjun lesandans
eins og horft sé gegnum sérútbúið gler með afmörkuðum sjón-
fleti.23 Þó að Halldór sé yfirleitt fremur spar á líkingar geta þær
verið bæði markvissar og áhrifaríkar. Þær eru eðli sínu samkvæmt
algengastar þar sem fjallað er um bókmenntir og listir, og í mann-
lýsingum leitast hann stundum við að bregða upp lunderni eða
jafnvel lífsmynd persónunnar með einni líkingu eða dæmisögu
(iexemplum). Mannlýsingar í ritgerðum Halldórs eru forvitnilegt
rannsóknarefni út af fyrir sig, með hugsanlegum samanburði við
síðustu „essayrómanana“, þ.e.a.s. endurminningabækur hans. Hér
verður að takmarka umfjöllun að sinni við tvo fyrrgreindra efnis-
flokka, stjórnmálagreinar og menningargagnrýni.
Stjórnmálagreinar
Þegar Halldór Laxness flokkaði sjálfur greinar sínar og ritgerðir
eftir efni skipaði hann eingöngu ritgerðum alþjóðlegs efnis eða al-
þjóðlega grundvölluðum í flokk stjórnmálagreina. Þeirri skiptingu
er fylgt hér að mestu.
Stjórnmálagreinar frá 1934-1945 fjalla um margvísleg efni,
uppbyggingu Sovétríkjanna eftir byltinguna, uppgang fasismans
og samfylkinguna gegn honum, borgarastríðið á Spáni, Finr.agald-
urinn, heimsstríðið. Meginviðfangsefni næsta áratuginn, 1946-
1955, er barátta fyrir heimsfriði og kjarnorkuafvopnun, andóf
gegn hernaðarbandalögum. I mörgum þessara ritsmíða eru dregn-
21 Reisubókarkorn. Reykjavík 1950, 74.
22 „Er komið að kveðjustund?“ Reisubókarkorn, 77.
23 Max Black, Models and Metaphors. Studies in Language and Philosophy. íþöku
og Lundúnum 1962, 40.