Skírnir - 01.04.2002, Page 90
84
ÞORLEIFUR HAUKSSON
SKÍRNIR
um skifti svarið ekki máli“ (7). Auk þess er viðbúið að ritstjórinn
hafi ekki áhuga á einlægu svari heldur vilji hann bara staðfestingu
á sinni eigin kreddu.
Þá veltir Halldór fyrir sér spurningunum sjálfum og finnur
ekki heila brú í þeim. Hvert orð í fyrri spurningunni er dregið í
efa: Er einhver höfuðskylda bókmenntanna til? Hver þykist þess
umkominn að heimta hana? Og hvaða skepna er rithöfundurinn í
dagi Sömu útreið fær aóalhlutverk bókmenntanna, þar sem bók-
menntir eigi jafn fjölbreyttu hlutverki að gegna og þær eru fjöl-
breyttar sjálfar.
Meginefni ritgerðarinnar upp frá þessu eru hugleiðingar studd-
ar sögulegum dæmum um einstrengingslega hugmyndafræði,
valdboð gagnvart list orðsins og ofsóknir á hendur sérhyggju-
mönnum. Þó að fjallað sé um miðaldakirkjuna og rannsóknarrétt-
inn er skeytum greinilega beint að nútímalegri alræðiskerfum,
enda áréttað í lokaorðunum (29-30).
Tortryggni gagnvart kennisetningum og efasemdir um hvers
konar Stórasannleik birtast að nokkru í stílnum. Höfundur setur
fullyrðingar einatt fram í tilgátu- eða spurnarformi sem er innleitt
af orðum eins og „Ætli“, „Skyldi ekki“ og beitir hæversklegum
háttarsögnum („mætti ég“, „leyfist mér“) sem í elstu deilugreinum
hans voru notaðar nær eingöngu til að hnykkja á svigurmælum. Þá
færist stíllinn aftur í átt til hversdagsmálsins, að þessu sinni á þann
hátt að allt yfirbragð einstakra ritgerða líkist meira óformlegu
rabbi við lesandann, þar sem alls kyns uppátæki eru góð og gild.
Gott dæmi er ritgerðin „Egill Skallagrímsson og sjónvarpið" sem
teflir saman heimi Egils og lífsháttum nútímans. Það sem væntan-
lega höfðar mest til íslenskra lesenda eru hnyttileg stílbrot í end-
ursögn Egils sögu:
Þegar skáldbróðir hans Einar skálaglam kom við á bænum að vitja skálds-
ins í elli hans, en var svo óheppinn að grípa í tómt, þá heingdi hann upp
skjöld settan gulli og gimsteinum, sem kostaði tíu þúsund dollara, fyrir
ofan rúmið kallsins. Þegar Egill kom heim og sá þennan fjanda hánga
þarna, þá sagði hann: fáið mér hest minn og mun ég ríða eftir því djöfuls
fífli Einari skálaglam og drepa hann. Sem betur fór var Einar allur á bak
og burt. Egill Skallagrímsson týndi síðan appíratinu oní sýruker. (120)