Skírnir - 01.04.2002, Síða 112
106
ÁRMANN JAKOBSSON
SKÍRNIR
beldi og friðsemi. Það er skýr kristin undiralda í sögunni frá upp-
hafi til enda. Aðskilnaður Flóres og Blankiflúr stafar af andúð hins
heiðna Felix konungs, föður Flóres, á kristni. Andstæða hans er
hin kristna móðir Blankiflúr sem nær að kristna móður Flóres svo
vel að hún getur talið son sinn á að drepa sig ekki, þar sem hann
muni þá ekki hitta Blankiflúr á Blómsturvelli (Paradís) (23-25).
Sögunni lýkur á að Flóres tekur kristni, eftir að hafa fyrst séð fagr-
ar kirkjur þó að úrslitum ráði að þar með fær hann að njóta
Blankiflúr (76). Að lokum fara þau hjónin í munklífi og nunnuset-
ur og „endu sína lífdaga þar í guðs þjónustu“ (77) en ekki fyrr en
eftir langt, farsælt og veraldlegt hjónalíf. Sögunni lýkur á hvatn-
ingu til hlýðenda verksins um að fylgja þessu fordæmi og ganga í
klaustur: „Gefi Jesus Christus segjundum ok heyrundum, at vér
megum svá várt líf enda í guðs þjónustu" (77). En eins og fram
hefur komið er þetta þó allt sett skör lægra en ástin. Samlíf Flóres
og Blankiflúr er höfuðatriði sögunnar, átök kristni og heiðni
aukaatriði. Þau þjóna ástinni fyrst en guði að því loknu.
Það sem ef til vill er sérstakast við hina skáldlegu skýringar-
hyggju sem setur svip sinn á söguna er hversu oft hún hvetur til
tvísýnnar niðurstöðu, til dæmis í þessari útleggingu um samband
viskunnar og gæfunnar:
En hamingja þeira, er sumir menn kalla gæfu, skipti brátt um sœmð þeira
eptir sinni venju ok gerði þau nóg sorgfull, sem þau váru glgð áðr, þvíat
þat var hennar leikr, at hon hóf þau upp um stund, ok niðraði síðan. Ok
er engi svá óvitr, ok fylgir honum gæfan, at hann er eigi kallaðr vitr; en er
gæfan minkar, þá heitir hann fól. (63)
Líf Flóres og Blankiflúr er leikur hamingjunnar. Má það til sanns
vegar færa þar sem það er fyrst og fremst gæfan sem kemur Flór-
es á ný í fang Blankiflúr, auk hjálpar góðra manna. Um leið er ævi
þeirra dæmi sem nýtist til að skilja heiminn. Og að síðustu kemur
í því fram tvísýn merking orða. Sama mann má kalla vitran eða fól
eftir því hvernig landið liggur. Þannig er í sögunni grafið undan
merkingu þeirra lýsingarorða sem ekki er farið sparlega með.29
29 Raunar er notkun lýsingarorða í sögunni minni en í ýmsum öðrum þýðingum
riddarabókmennta hér á landi en áberandi er notkun á litum og tölum.