Skírnir - 01.04.2002, Page 114
108
ÁRMANN JAKOBSSON
SKÍRNIR
Eftir þessa hagsýnisorðræðu, þar sem gælt er við hvers kyns fagra
hluti, gerist faðirinn enn á ný tilfinningasamur og lætur sækja það
sem hann fékk fyrir Blankiflúr, ker eitt mikið sem áður hefur ver-
ið lýst í löngum og ítarlegum útúrdúr (15-20).
„Son minn“, segir hann, „tak hér ker þat, er hon var keypt með!“
Þá svaraði Flóres: „Hver var sú?“ segir hann.
„Blankiflúr, unnusta þín!“ (29)
Þrátt fyrir allan harm og sjálfsvígshugleiðingar er Flóres búinn að
gleyma Blankiflúr í gersemaflóðinu. Brosað er að ástinni sjálfri og
Flóres sem í gleðinni yfir að vera á leið í langferð og þar að auki í
dulargervi og ánægju yfir skrautinu sem fylgir honum í leitinni
hefur gleymt sjálfum tilgangi fararinnar. Þess háttar gamansemi er
í anda fjarstæðu sem okkur gæti þótt nútímaleg en á sér einnig
samsvaranir á miðöldum. Höfundur og söguhlýðendur skilja að
megintilgangur sögunnar er brúðarleitin en Flóres hefur gleymt
þessu, svo niðursokkinn er hann í að skipuleggja hvert smáatriði í
ferðinni.
Síðan er haldið áfram í hlutagælum og við tekur löng greinar-
gerð um hest Flóres og söðulinn sem eykur á fáránleikann
(29-30). En þessi fjarstæðukenndi húmor kemur ekki aðeins fram
í einu leiftri. Hann er sínálægur notalegur úrdráttur í harmsögu
elskendanna. Það er ekki síst hans vegna að Flóres saga er fjarri
Tristrams sögu í öllu eðli. Þannig er Flóres látinn mismæla sig á
neyðarlegu augnabliki:
En þá er Flóres heyrði þat, þá fell hann í óvit ok mælti síðan: „Ek em eigi
bróðir hennar, heldr unnasti. Nei,“ kvað hann, „ek mistalaða: hon er syst-
ir mín, en eigi unnusta." (44)
Sannleikurinn reynist sagna bestur en það minnir á gamanleik að
mismæli fleyta hetjunni fram. Og gamanið eykst þegar Flóres
reynir að breiða yfir mismælin.
Hámarki nær fjarstæðan í sögulok þegar sett er fram eins kon-
ar paródía á hefðbundinn ævintýraendi þar sem öllu er kippt í lið-
inn, hinum góða launað en hinum illa refsað. Þess í stað minnir út-
deiling gæða í Flóres sögu á stólaskipti sendiherra. Allir eru færð-
ir til hver í annars stöðu án þess að það þjóni sýnilegum tilgangi: