Skírnir - 01.04.2002, Page 116
110
ÁRMANN JAKOBSSON
SKÍRNIR
einfaldlega öðruvísi og í sögunni er það ekki nema jákvætt. Þar er
lítið gert með kappa sem bregðast ekki við að öðru leyti en því að
hleypa brúnum eða gráta haglkornum.31
7. Ast og uppreisn
Saga Flóres og Blankiflúr virðist við fyrstu sýn vera þroskasaga en
er það ekki. Elskendurnir eru menntuð og uppgötva ástina í bók-
um en ævintýrin þroska þau ekki. Blankiflúr er fjarri mestalla sög-
una en Flóres fyllist fyrst örvæntingu þegar hann heldur hana
látna. Þá verður hann bjartsýnn og telur unnustuna nánast fundna,
heldur í leiðangur með hálfa búslóðina meðferðis og er svo ákafur
í að dulbúast sem kaupmaður að hann hefur nánast gleymt
unnustunni. Síðan dettur hann reglulega úr gervinu og kann ekk-
ert að dyljast á leið sinni. Honum er hjálpað við hvert fótmál og
þarf í raun fátt að leggja á sig til að ná fundum Blankiflúr, annað
en að heilla alla sem hann hittir. Flóres er sjálfhverf hetja sem
skortir stillingu, grætur óspart missi sinn milli þess sem hann rök-
ræðir við sjálfan sig og er ýmist fullur bjartsýni eða svartsýni.32
Þessar geðsveiflur og raunar öll hegðun Flóres minna frekar á
unglinga en fullorðið fólk. Flóres heldur áfram að vera unglingur
söguna á enda. Það er nákvæmlega þessi bernska sem gerir hann
að aðlaðandi söguhetju þó að hann skorti marga eiginleika sem eru
mikilvægir fyrir roskið fólk. Sagan sjálf er nálæg gildismati og
hugarfari hinna ungu söguhetja. Barnsleg sýn þeirra á heiminn er
í öndvegi.
Flóres saga og Blankiflúr er öðruvísi en flestallar sögur sem ís-
lenskir hlýðendur hennar munu hafa þekkt. Flóres er nýstárleg
hetja, ástarsamband þeirra Blankiflúr er óvenjulegt og þó að ara-
31 Sbr. Aldís Guðmundsdóttir, „„Því ertu svo fölur?““, 135-39.
32 Skarpar andstæður setja einnig svip sinn á aðrar tegundir þýddra bókmennta,
til að mynda heilagramannasögur. í sögum af helgum meyjum haldast þessar
andstæður í hendur við uppreisn gegn feðraveldinu. Sjá Ásdís Egilsdóttir,
„Kvendýriingar og kvenímynd trúarlegra bókmennta á íslandi,“ Konur og
kristsmenn: Þxttir úr kristnisögu Islands. Inga Huld Hákonardóttir ritstýrði.
Reykjavík 1996, 91-116, einkum bls. 93-100.