Skírnir - 01.04.2002, Side 124
118
SIGRÍÐUR ÞORGEIRSDÓTTIR
SKÍRNIR
nýjungagjarnari en íbúar stórþjóða. Við búum ekki við tilbúin
landamæri sem hafa verið sett upp í andstöðu eða fjandsemi við
nágrannaþjóðir. Landamæri okkar eru náttúruleg og ekki mann-
gerð til að afmarka okkur frá öðrum. Heimurinn á kannski þess
vegna greiða leið að okkur, hann getur bókstaflega flætt inn á okk-
ur (án þess að flæða yfir okkur) þrátt fyrir eða öllu heldur vegna
þess að Island er lengst norður í Atlantshafi. Og eins og títt er um
smáríki eru borgarar þessa lands á heildina litið fjöltyngdari en
landsmenn margra stórþjóða. Þetta skapar frjóan jarðveg fyrir
heimsborgaralega vitund. Bandaríski heimspekingurinn Martha
Nussbaum hefur sagt um samlanda sína Bandaríkjamenn að þeir
séu í samanburði við margar aðrar þjóðir „ógnvekjandi fáfróðir"
um umheiminn sem geri að verkum að þeir viti í raun minna um
sjálfa sig en ella.16 Með því á hún við að alþjóðavitund og þjóðern-
isvitund styrki hvor aðra. Þetta rennir stoðum undir þá tilgátu að
þjóðernisvitund sé ekki að veikjast meðal þjóða sem eru opnar
fyrir straumum utan úr heimi. Orðið al-þjóð-leg hefur í miðju
sinni orðhlutann þjóð. Það er því um gagnvirk tengsl að ræða og
fráleitt að heimsborgarahyggja eða al- eða fjölþjóðleg vitund upp-
ræti þjóðerniskennd.17 (Aftur á móti eru mýmörg dæmi þess að
16 Martha Nussbaum, „Patriotism and Cosmopolitanism", í Joshua Cohen (rit-
stj.), For Love of Country, Boston: Beacon Press, 1996, 11.
17 Þjóðerniskennd er flókið fyrirbæri. Ef við lítum okkur nær þá eru þau auð-
kenni sem við segjum vera íslensk eða íslendingsleg af ýmsum toga, bæði hug-
læg og hlutlæg. Vissar staðreyndir eins og ættir og uppruni og ríkisfang teljast
til hinna hlutlægu þátta. Hinir huglægu þættir eru margvíslegir og fyrst og
fremst breytilegir eftir sögulegum tíma, aðstæðum og hverjir eiga í hlut. (Sbr.
grein Sigurðar Kristinssonar, „Alþjóðleg fræði á íslensku?“, Skírnir 175, 2001,
180-194). Hvað hinn huglæga þátt varðar hefur aukin einstaklingshyggja síð-
ustu áratuga haft mikil áhrif á mótun þjóðernisvitundar okkar. Líkast til má
segja að hvert okkar sem segjum okkur vera íslending sé með sína eigin, per-
sónulegu, misfastmótuðu sjálfsmynd sem íslendingur. Það er því þverstæðu-
kennt að þjóðleg sjálfsmynd sérhvers manns, það sem gerir mann hluta af þess-
ari þjóð, sé mjög persónulegur samtíningur auðkenna og þess vegna eiginlega
einkamál hvers og eins. Ég er þar með ekki að fullyrða að við höfum algerlega
frjálst val í mótun persónulegrar þjóðernissjálfsmyndar. Við fæðumst inn í vissa
þjóð og ef við ölumst upp meðal sömu þjóðar mótumst við af henni og göng-
um inn í ráðandi túlkanir á því hvað merki að vera af þeirri þjóð. Ymist sam-
þykkjum við þessar túlkanir eða tökum gagnrýna afstöðu til þeirra. Ég vil
ganga svo langt að fullyrða að þar sem maður er í mestri togstreitu við sérstök