Skírnir - 01.04.2002, Page 134
128
SIGRÍÐUR ÞORGEIRSDÓTTIR
SKÍRNIR
Umræða um Evrópumál þarf að verða miklu meiri innan þjóð-
ríkjanna og stjórnmálaflokkar þurfa að gera Evrópumál að sínum
baráttumálum, þ.e. að landtengja þau og draga fram Evrópuhliðar
landsmála. I leikriti Henriks Ibsen, Fjandmanni fólksins, segir
Stokkmann læknir að það þurfi að vinna fyrir því að verða þjóð.37
Hið sama gildir um að verða samveldi Evrópu. Það er þó deginum
ljósara að einmitt þau atriði sem byggjast á virkri þátttöku borg-
aranna muni vega þyngst í myndun evrópskrar samstöðu. Það eru
ýmsar hindranir í veginum, eins og t.d. sú staðreynd að í Evrópu
eru töluð mörg tungumál. Habermas segir það jákvætt að nokkur
tungumál séu opinber mál Evrópusambandsins, en um leið er ljóst
að þau sem þar starfa tala flest ensku sín á milli. Því finnst honum
sú umræða jákvæð sem er innan þeirra Norðurlanda sem hafa hug
á að innleiða kennslu í ensku sem „öðru fyrsta máli“ í skólum.
Þróunin yrði m.ö.o. sú að tvítyngi yrði innleitt. Það þurfi ekki að
leiða til þess að enska verði einráð og tungumál aðildarlandanna
deyi út. Svo fremi sem öflug áhersla verði lögð á málrækt ættu ein-
stök tungumál í Evrópu að geta haldið sér og lifað góðu lífi. Borg-
urum landanna sé augljóslega umhugað um að halda í tungu sína.
Tungan sé óendanlega mikils virði og ljóst að hnignun og dauði
tungumála hefur ómælt þekkingar- og menningartap í för með sér.
Eg læt þetta nægja um þá stóru spurningu hvort Evrópusam-
bandið geti orðið sameiginlegur opinber vettvangur allra Evrópu-
búa og sný mér að gagnrýni á hugmyndir Habermas.
Lýðrœði, miðja og jaðar
Hugmyndir Habermas eru háfleygar. Reynslan segir okkur að
vera efins, því aldrei hefur komist á virkt lýðræði á þeim breiða
grundvelli sem Habermas gerir sér vonir um að takist að skapa í
Evrópu. Hann viðurkennir að hugmyndin sé erfið í framkvæmd,
en fullyrðir jafnframt að þetta sé sú leið sem verði að fara svo hægt
37 „Þó svo að fjöldi lífvera í mannsmynd komi saman verða þær ekki sjálfkrafa að
þjóð. Það er heiður sem þarf að vinna fyrir." Henrik Ibsen, Fjandmaður fólks-
ins, í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar, Leikfélag Reykjavíkur, 2001, 145.