Skírnir - 01.04.2002, Side 157
SKÍRNIR
HVAR? ... Ó HVAR?
151
í Þýskalandi að nú risi upp hinn nýi maður („Der neue Mensch“). [...] Að
þessu leyti er „Söknuður" expressjónískt verk ... (71)
Þetta er að mínum dómi hæpin hugmyndasaga. Hugsjónin um
hinn ,nýja mann‘ er ekki sprottin upp innan expressjónismans þó
að mörg kvæði frá seinnihluta áratugarins bergmáli hana, hún er
partur af tíðaranda, hluti af pólitískri hugmyndafræði tímans. Ég
tel alveg ástæðulaust að rekja þessi þrjú atriði til expressjónismans.
Hitt er rétt að í öllum þessum dæmum er um erlend áhrif að ræða,
þýsk áhrif getum við sagt, og þetta voru nýmæli í íslenskum skáld-
skap þegar „Söknuður" kom út.
Nútímalýrík
í bréfi Jóhanns til Skúla Þórðarsonar eru athyglisverðar setningar
sem þeir Ingi Bogi og Eysteinn tilgreina báðir (25 og 70);
Þetta er fyrsta tilraun mín til að skrifa moderne Lyrik á íslenzku. Modern
er þessi Lyrik í þeim skilningi, að hún fjallar í eðli sínu frekar um almennt
efni en einungis um privat mál.
Ef treysta má því, sem varla er þó alveg öruggt, að Jóhann sé hér
að fjalla um „Söknuð“, telur skáldið sumsé kvæðið vera „moderne
Lyrik“ í þeim skilningi að hann sé ekki bara að fást þar við vanda-
mál eins manns og vonbrigði hans með líf sitt (þótt hann sé vissu-
lega að fjalla um sjálfan sig20) heldur algengan vanda nútíma-
manna, vanda heillar kynslóðar. Að þessu leyti, og raunar bæði að
inntaki og búningi, má „Söknuður“ með fullum rétti kallast nú-
tímalýrík, og í honum kveður vissulega við nýjan tón í skáldskap
okkar.21
Ég held þó að Ingi Bogi ýki það nokkuð (37) að við getum illa
skynjað nú hvaða nýjabragð mönnum þótti að kvæðinu þegar það
birtist fyrst á prenti árið 1928. Eitt er víst: nýmæli kvæðisins var
20 Sbr. orð hans í bréfinu: „Jú, það er reyndar ég sjálfur, sem ég segi frá - en jafn-
framt er þetta raunaljóð mitt, raunaljóð okkar allra.“
21 Fróðlegt er í þessu sambandi að bera „Söknuð" saman við sum kvæði Einars
Benediktssonar, t.d. „Gamalt lag“ og „Pundið“ í Hrönnum (1913), þar sem
áþekk stef hljóma en búningurinn er gjörólíkur.