Skírnir - 01.04.2002, Page 160
154
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
er eins elegískur og verða má. - Rétt er nú að fara fáeinum orðum
um þá tegund kvæða sem nefnd eru elegíur.
Orðið elegía er komið úr grísku (elegeia) og hafði þar tvenns-
konar merkingu: 1) bragarháttur þar sem hexameturs- og penta-
meturslínur skiptast á, daktýlsk tvíhenda (elegeion), 2) tregaljóð
(elegos) undir ýmsum háttum, en oftast fór þetta saman. Grískir
málfræðingar í Alexandríu skýrðu orðið svo að það væri komið af
e e legein: ,segja ó vei‘, en þeirri skemmtilegu skýringu vilja nú-
tímamenn víst ekki trúa og telja líklegra að heitið sé dregið af orði
yfir flautu.26 Hér verður heitið elegía notað í síðari skilningnum -
angurljóð, tregaljóð, saknaðarljóð - en talað um klassíska elegíu ef
hin er merkingin.
í Dúínó-elegíunum bjó Rilke til nýjan hátt sem er tilbrigði við
hina klassísku elegíu,27 daktýlskan fimmliðahátt, og hafði að
grunnbrag á öllum kviðunum nema tveimur, sem eru með stak-
hendum brag (jambískum fimmliðahætti eins og t.a.m. hjá Shake-
speare). Ýmislegt í „Söknuði“ gæti bent til áhrifa frá Dúínó, eða
þess, skulum við segja, að Jóhann hafi þekkt þann bálk vel. Brag-
urinn hjá Rilke er þó víðast hvar mun reglulegri en hjá Jóhanni
sem brýtur upp hrynjandina af miklu listfengi með óreglulegri er-
indaskipan og mislöngum ljóðlínum, eins og vikið er að hér að
framan. Sumstaðar eru orðalagslíkindi, sjá t.d. fimmtu elegíu:
Wo, o wo ist der Ort - ich trag ihn im Herzen
(Hvar, ó hvar er sá staður - ég geymi hann í hjarta)
(Kristján Árnason þýddi)28
Þetta minnir ekki lítið á upphafs- og lokalínurnar í „Söknuði":
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?
[...]
Hvar? ... ó hvar?
26 Sbr. Theodore Ziolkowski: The Classical German Elegy 1795-1950, Princeton
University Press 1980, bls. 56-57.
27 Sbr. Wolfgang Kayser: Kleine deutsche Versschule, Francke Verlag 1962, bls.
118.
28 Dúínó-tregaljóðin, bls. 63.