Skírnir - 01.04.2002, Síða 173
SKÍRNIR
KVENNA MEGIN
167
hefðbundin kvennastörf vasru ekki metin mikils í þjóðfélaginu, heldur að-
eins að starfsval þeirra sem voru kvenkyns væri bundið við þess háttar
störf. Aukið sjálfræði kvenna fólst því í að konur gætu líka tekið að sér
hefðbundin karlastörf.
Gagnrýni Kvennaframboðanna og Kvennalistans á íslenskt þjóðfélag
var róttækari. Þar var gildismat þjóðfélagsins dregið í efa. Spurt var af
hverju hefðbundin kvennastörf væru ekki eins mikils metin og hefð-
bundin karlastörf og af hverju hefðbundin kvenleg gildi væru ekki eins
mikils metin og hefðbundin karlleg gildi. Því var haldið fram að „mjúku
málin“ ættu að vera mál okkar allra og til að aflétta kerfisbundinni kúg-
un kvenna þyrfti þjóðfélagið að viðurkenna að svo væri. Aukið sjálfræði
kvenna fólst samkvæmt þessu í því að konur fengju að vera kvenlegar í
hefðbundnum skilningi, vera umhyggjusamar, nærandi, í góðum tilfinn-
ingatengslum o.s.frv. Eins og slagorð sjöunda áratugarins, „Black is
beautiful!", ber vitni um, drógu Bandaríkjamenn af afrískum uppruna
ráðandi gildismat í efa á svipaðan hátt og Kvennaframboðin og Kvenna-
listinn gerðu síðar hér á landi. í báðum tilvikum var reynt að hefja til
vegs og virðingar það sem áður hafði verið vanmetið, jafnvel fótum
troðið.
En svo er líka hægt að gagnrýna þá hugmynd að það að aflétta kúgun
kvenna feli endilega í sér meira sjálfræði. Þá má líta á Kvennaframboðin
og Kvennalistann sem dæmi um hreyfingar sem höfðu aukið sjálfræði
kvenna ekki að höfuðmarkmiði, heldur hafi þær stefnt að betri þjóðfé-
lagsstöðu, meiri virðingu og hamingju kvenna. Þetta held ég að lýsi betur
þessum hreyfingum. Þá er einnig auðveldara að skilja á milli tvenns kon-
ar femínískra hreyfinga sem ég vil kalla „frelsishreyfingar" og „gildis-
hreyfingar“.
Líta má á muninn á frelsishreyfingum og gildishreyfingum sem af-
rakstur þess hvaða fyrirbæri er litið á sem kynjuð. Kynjun er hugtak sem
mikið er notað í femínískum fræðum og getur þýtt ýmislegt, allt eftir
samhenginu. Skilja má kynjun svo að tiltekinn mælikvarði, hugtak eða
viðmið sé hlaðið gildum sem eru á einhvern hátt kynbundin. í þeim skiln-
ingi voru Rauðsokkurnar að gagnrýna þjóðfélagið fyrir að hafa kynjaða
mælikvarða á hvaða fólk væri hæft til að vinna hvaða störf. Þessir kynj-
uðu mælikvarðar mismunuðu fólki eftir kynferði. Kynjun þessara mæli-
kvarða takmarkaði frelsi kvenna til starfa. Markmið Rauðsokkanna var þá
að afkynja þessa mælikvarða og auka þannig sjálfræði, eða frelsi, kvenna.
Tekið skal fram að frelsishreyfingar þurfa ekki endilega að hafa sjálfræði
að leiðarljósi. Jafnvel er hægt að hugsa sér að markmið Rauðsokkanna
hefði getað verið það eitt að frelsa konur undan oki kynbundinnar verka-
skiptingar, en ekki endilega að auka sjálfræði þeirra. Þetta getur farið sam-
an, en þarf það ekki endilega. Sjálfræði felur í sér annað og meira en að
frelsi viðkomandi til ákvarðana sé ekki takmarkað.