Skírnir - 01.04.2002, Síða 174
168
ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR
SKÍRNIR
Aftur á móti má líta þannig á að Kvennaframboðin og Kvennalistinn
hafi gagnrýnt þjóðfélagið fyrir að hafa kynjað gildismat, þar sem störf og
gildi sem höfðu hefðbundin tengsl við karla voru metin meira en störf og
gildi sem höfðu hefðbundin tengsl við konur. Það að afkynja gildismat
þjóðfélagsins átti þá að hafa í för með sér að konur, og það sem kvenlegt
var, yrði hafið til vegs og virðingar. Hreyfingin snerist því um að hampa
kvenlegum gildum.
Ég tek það fram að þegar sagt er að fyrirbæri eins og gildismat sé kynj-
að, þýðir það ekki endilega að verið sé að halda því fram að gildin sem um
ræðir séu naubsynlega karlleg (eða kvenleg). Nóg er að um hefðbundin
tengsl milli kyns og viðkomandi fyrirbæris sé að ræða. Miklu róttækari
gagnrýni er að staðhæfa að eitthvert fyrirbæri sé í eðli sínu kynjað. Oft
fylgir slíkri staðhæfingu ákveðin eðlishyggja. Ég mun koma betur að því
hér á eftir.
Sigríður Þorgeirsdóttir er að mínum dómi kvenfrelsiskona í þeim
skilningi að hún gengur út frá því að bætt staða kvenna felist fyrst og
fremst í auknu sjálfræði þeirra, ekki endilega róttæku endurmati á þjóð-
félagsgildum. Kenningar Sigríðar taka ákveðið mark á róttækari gagnrýni
á þjóðfélagsgildin, en sú gagnrýni er notuð til þess að draga upp flóknari
mynd af því í hverju kvenfrelsi felst, mynd sem tekur tillit til þátta sem
vestræn pólitísk heimspeki hefur ekki sinnt.1 Til að renna stoðum undir
þessar staðhæfingar ætla ég að ræða nánar umfjöllun Sigríðar um kenn-
ingar Carol Gilligan, Nancy Chodorow og Kvennalistans annars vegar,
og kenningar Judith Butler hins vegar.
Gagnrýni Sigríðar á eðlishyggju og umhyggjusiðfræði Gilligan,
Chodorow og Kvennalistans2
Eðlishyggja er kenning sem femínistar hafa ekki komist hjá að ræða í ár-
anna rás, og þar hefur hún ýmist verið vinur eða óvinur. Til dæmis var
eðlishyggja notuð í baráttu gegn kosningarétti kvenna, þar sem sú kenn-
ing var við lýði að konur gætu í eðli sínu ekki hugsað rökrétt; tilfinning-
ar vægju þyngra í þeirra huga en rök og þannig fólki væri ekki treystandi
til að kjósa. Én eðlishyggja hefur líka búið að baki ákveðinni tegund af
1 Þetta er svo enda þótt sjá megi ákveðna þróun í kenningum Sigríðar þar sem
gildisumræða skipar hærri sess í nýlegri greinum heldur en þeim eldri. Sjá eink-
um greinarnar „Konur og líkaminn: Frá Beauvoir til Butler“ og „Erfðir og at-
læti: Um mannskilninginn í fræðum Bjargar C. Þorláksson" um dæmi þar sem
gildisumræða skipar hærri sess.
2 Sjá Nancy Chodorow, The Reproduction of Mothering: Psychoanalysis and the
Sociology of Gender, Berkeley, 1978; Carol Gilligan, In a Different Voice:
Psychological Theory and Women’s Development, Cambridge, Mass., 1982.