Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Blaðsíða 49
TMM 2011 · 4 49
Jón Baldvin Hannibalsson
Um frelsi og jöfnuð
Stefnumið handa jafnaðarmönnum á öld ójafnaðar
„Frelsi, jafnrétti, bræðralag.“
(kjörorð frönsku byltingarinnar, 1789)
„Frelsi fær ekki staðist sem forréttindi fárra.“
(Olof Palme, sænskur jafnaðarmannaleiðtogi)
„Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.“
(Úr Njálu)
Ef marka má gamlar bækur kusu landnámsmenn okkar fremur að
yfirgefa heimkynni sín (Noreg, Skotland, Orkneyjar og Írland) en að
beygja sig undir vald Noregskonungs. Þetta var á 9. og 10. öld, þegar
verið var að sameina Noreg með valdi í eitt ríki. Héraðshöfðingjar og
sjálfstæðir landeigendur og áhangendur þeirra stóðu frammi fyrir vali:
Að sverja hinu nýja yfirvaldi hollustueiða (þar með að samþykkja skatt
lagningarvald konungs) eða rífa sig upp með rótum og leita nýrra landa.
Landnámsmenn Íslands völdu seinni kostinn.
Síðan hafa meira en þrjátíu kynslóðir alist upp við þá sögulegu
goðsögn (eða sannleika), að forfeður okkar hafi fremur viljað hætta
lífi sínu en að fórna frelsinu. Draumur þessara hælisleitenda fyrri tíðar
var að finna goðsagnakennt draumaland – Ultima Thule – víðs fjarri
mannabyggð, þar sem þeir gætu búið að sínu sem frjálsir menn.
Þar sem þeir komu, að sögn, að ónumdu landi (eða er það bara goðsögn
sigurvegaranna?), gátu þeir kastað eign sinni á það. Hvort tveggja, land
kostir og dreifbýlið, var lítt til þess fallið að stunda þrælahald. Það var
því aflagt snemma á landnámsöld. Smám saman varð til samfélag sjálf
stæðra landeigenda sem voru staðfastir í þeim ásetningi sínum að lúta
engu yfirvaldi af því tagi sem þeir höfðu flúið frá.
Í þessum skilningi voru þessir ævintýramenn forhertir einstaklings-
hyggjumenn. Hitt er jafn satt, að samfélag þeirra einkenndist af