Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Blaðsíða 79
A r f l e i f ð m á r a n s
TMM 2011 · 4 79
Ég fæ ei varist honum á nokkurn hátt.
Valdsherra sem ásakar, fellir dóma og frestar.
Hann gaf mig að skilnaði skaða og ógn
og söng þá svo að hljómaði hreysti og ást:
[Viðlag á rómönsku máli Andalúsíu.]
„Meu lhabib enfermo de meu amar. /Que no ha d’estar?
Non ves a mibe que s’ha de no llegar.“
(„Ástarsorgin gerði vin minn veikan. /Er það skrítið?
Honum er jú haldið burtu frá mér.“)
Ljóðið er nokkurs konar bæn, skáldið ákallar Kaaba sem er mesti
helgidómur múslima í Mekka, hið helga skrín með steini í sem Múham
eð kyssti við endurkomu sína til Mekka. A.m.k. sumar greinar íslams
telja Adam og Evu hafa haft steininn með sér úr Eden, og tengja hann
ást. En þarna er allt með: hinn dæmigerði trúbador – að vísu arabískur
og kvenkyns – vansæll og undirgefinn, að dragast upp af ástarharmi
frammi fyrir hinum elskaða, hrokafullum og harðbrjósta „valdsherra“.
Ástin er vonlaus og verður að viðþolslausri kvöl. Og með viðlagið á
rómönsku máli áttu slíkir dægurlagasmellir breiðari hljómgrunn innan
Andalúsíu – og greiðari flugleið út.
Flugleiðir ástarsöngvanna voru margvíslegar. Ein stétt sem setti svip
á þjóðlífið í Andalúsíu var kvenkyns atvinnusöngvarar, ófrjálsir en
eftirsóttir í fínni húsum. Heimildir eru fyrir því að þannig söngkonur
væru keyptar út fyrir máraríkið, m.a. af frönskum furstum og aðals
mönnum, og stundum voru þær teknar sem herfang. Franskar sam
tímaheimildir segja frá einum slíkum ránsfeng kristinna lénshöfðingja.
Þeir höfðu unnið bæinn Barbastro af márum árið 1064 og 2000 slíkir
söngþrælar voru teknir sem herfang. Einn lénsherrann sem fékk hlut af
því herfangi var Vilhjálmur VIII hertogi af Akvitaníu, faðir Vilhjálms
IX sem nefndur hefur verið „hinn fyrsti trúbador“, og skömmu síðar
mun sonurinn, Vilhjálmur trúbador sjálfur, hafa eignast söngvarana að
föður sínum látnum, þá enn á táningsaldri. Þeir feðgar áttu sterk fjöl
skyldutengsl suður á Íberíuskaga, og sem sagt: Hinn „fyrsti trúbador“
naut að öllum líkindum arabísks ljóðasöngs innan hirðar sinnar allt frá
uppvaxtarárunum. Og um helmingur af trúbadoraljóðum Vilhjálms
fylgir munstri og bragarháttum zajalsöngvanna (Spánverjarnir Julian
Ribera, sjá Music in Ancient Arabia and Spain, 1970, og Menéndez Pidal,
sjá Cantos Románicos Andalusíes, 1951, bentu fyrir löngu á slík tengsl).
Það er óþarft að leita langt að fyrirrennurum franskra trúbadoraljóða
af því þeir eru við næstu dyr. Skyldleiki suðurfranskra trúbadora og