Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Blaðsíða 98
K r i s t í n E i n a r s d ó t t i r
98 TMM 2011 · 4
mun hafa dugað til að slá á óeirðir í miðbæ Reykjavíkur. Flosi Ólafs
son – sem sá um fyrstu skaupin í sjónvarpinu – minnist þessara óeirða
í viðtali í Helgarpóstinum 23. desember 1996 og virðist hann standa í
þeirri trú að áramótaskaup sjónvarpsins hafi átt sinn þátt í að koma í
veg fyrir téðar óeirðir:
Það sem mér er einna eftirminnilegast við þessi skaup er að þegar þau hófust
breyttist nær allt atferli manna til hins betra. Fyrir þann tíma hafði allt verð
hálfvitlaust niðri í bæ á gamlárskvöld og lögreglan réði ekki neitt við neitt, en
eftir að skaupin byrjuðu var nær enginn á ferli; allir héldu sig heima og horfðu á
skaupið (Helgarpósturinn 1996, 23. desember).
Tímamót
Það er manninum eiginlegt að halda hátíð á tímamótum hverskonar, en
segja má að hægt sé að skipta hátíðum gróflega í tvo aðalflokka. Annars
vegar eru hátíðir sem yfirvöld, veraldleg og andleg á hverjum stað og
tíma stjórna og skipuleggja. Hér er um að ræða trúarlegar hátíðir, jól
og páska og þjóðhátíðir ýmiskonar þar sem valdhafar þjóðarinnar eru
áberandi og reglur hátíðarinnar eru settar af þeim sem valdið hafa.
Hátíðir af þessu tagi leggja í rauninni sitt lóð á vogarskálarnar til að
festa valdhafana í sessi. Hinsvegar eru hátíðir alþýðunnar. Hér á landi
má til dæmis nefna forna dansleiki eða vikivakasamkomur þar sem
almenningur kom saman og viðhafði ýmsan háttskap sem yfirvöldum
var oft ekki að skapi (sjá t.d. Aðalheiður Guðmundsdóttir, 2009). Á
seinni tímum má til dæmis nefna hátíðir ungs fólks um hvítasunnu en
einkum um verslunarmannahelgar. Á hátíðum sem þessum eru aðrar
reglur en þær sem viðhafðar eru á hinum hefðbundnu hátíðum yfir
valda, þar sem eru hefðbundnar fastar reglur, stéttskipting er augljós
og undirstrikuð með ýmsu móti. Á hátíðum almennings er allt annað
yfirbragð og stéttskipting er lítil eða engin. Slíkar hátíðir einkennast
oft af mikilli drykkju, kynlífi og svalli. Almenningur tekur völdin og
hlutverkum er snúið við (Bakhtin, 1984). Sama hátíð getur í raun bæði
talist hátíð þeirra sem stjórna og alþýðunnar og má nefna 17. júní,
þjóðhátíðardag okkar Íslendinga sem hefst með árvissum atburðum þar
sem stjórnvöld landsins eru í aðalhlutverki en lýkur svo oftar en ekki
með karnivalsástandi þar sem alþýðan er í aðalhlutverki.
Áramót Íslendinga og þá fyrst og fremst áramótaskaup sjónvarpsins
eiga ef að er gáð ýmislegt sameiginlegt með slíkum almenningshátíðum
þar sem gert er grín að yfirvöldum og ýmsu því sem hátíðlegt þykir á