Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Blaðsíða 44
N j ö r ð u r P. N j a r ð v í k
44 TMM 2011 · 4
sest Halldór loks við og ritar fyrsta bindið um veturinn og birtist á prenti
ári síðar, haustið 1943. Kosin hafði verið milliþinganefnd í maí 1942 til
þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins, og
var jafnframt ljóst að stefnt yrði að sambandslitum við Dani og stofnun
lýðveldis. Það er við þær aðstæður sem Halldór leitar á vit sögunnar til
að færa mönnum skilning á samtímanum og því sem framundan er.
Því að allar sögulegar skáldsögur ganga ævinlega út frá samtímanum.
Annars ættu þær tæpast erindi. Þannig er Íslandsklukkan öðrum þræði
táknræn frásögn sem ætlað er að spegla grundvallarskilning á Íslandi
og íslenskri þjóð.
Brotin klukka kemur raunar skömmu áður fyrir í skáldskap Hall
dórs, nánar tiltekið í 8. kafla Fegurðar himinsins (1940), fjórða bindis
sögunnar af Ólafi Kárasyni, þar sem Jason bóndi segir skáldinu frá því
þegar safnað var öllum kopar til að flytja til Kaupmannahafnar: „Og þó
keyrði um þverbak,“ segir hann, „þegar þeir tóku niður kirkjuklukk
urnar í Bervíkurkirkju, sem voru orðlagðar um allar sýslur fyrir hve
fagur var í þeim hljómurinn. Þær höfðu fylgt staðnum síðan í pápisku.
Þessar hljómfögru klukkur létu þeir dönsku brjóta í smátt til þess að
þær færu betur í klyf og reiddu þær síðan til sjávar. Síðan var koparinn
bræddur upp og hafður í hallarþök í Kaupinhafn.“
Sagan sem fékk heildarheitið Íslandsklukkan hefst og henni lýkur
á Þingvöllum, þeim stað er allt snýst um í þjóðarvitund okkar, hvort
heldur er frelsi eða niðurlæging. Böðullinn Sigurður Snorrason lætur
Jón Hreggviðsson höggva niður þessa klukku, þrátt fyrir mótmæli gamla
mannsins í Bláskógum. Hann segir að þessa klukku megi ekki brjóta,
hún hafi fylgt Alþingi við Öxará síðan það var sett, og hafi Austmenn
fundið hana í einum helli við sjó þegar þeir komu að auðu landi, ásamt
krossi sem nú er týndur. Þannig er klukkan tvöfalt tákn, ekki aðeins
jákvætt sem elsta sameign þjóðarinnar, heldur einnig neikvætt, – enda
var henni hringt fyrir aftökur manna. Og þar með tengist hún leiðarstefi
allrar sögunnar: ranglæti og réttlæti – og réttlæti sem reynist ranglæti.
Hið sama réttlæti og hið sama ranglæti sem þjóðin hefur einatt barist
við – og gerir enn.
Um það hefur hinn hrakti alþýðumaður, Jón Hreggviðsson, ýmislegt
að segja.
„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti,“ segir hann. „Ég hræki
á Þá Stóru þegar þeir dæma rangt … Og þó hræki ég enn meira á þá
þegar þegar þeir dæma rétt, því þá eru þeir hræddir. Ætli ég ætti ekki
að þekkja minn kóng og hans böðul. Ég hef höggvið niður Íslands
klukkuna, feingið spænska treyu útí Lukkstað og tekið mitt faðirvor í