Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Page 46
H a l l g r í m u r H e l g a s o n
46 TMM 2012 · 1
(úff), Tíminn og vatnið er „fyrsta atómljóðið“ (kannski ekki alveg), og
Dalalíf er einn kaffiuppáhellingur út í gegn (kjaftæði). Körlunum hefur
þótt þetta fyndið á sínum tíma. Þetta var þægileg afgreiðsla á bók sem
þeir sáu konurnar drekka í sig, á meðan þeir sjálfir lágu í atómljóðum og
ættum hrúta. Það er svo aftur rannsóknarefni hversvegna Íslendingum
er svo gjarnt að niðra hlutum með því að tengja þá við kaffi. Því hér
erum við að tala um ansi ramma hefð, sem vörðuð er orðum eins og
„kaffibollaþvaður“ (eins og sagt var um Dalalíf) „Kaffibrúsakarlarnir“,
„kaffihúsaspekingar“ og nú síðast „lattelepjandi lopatreflar í 101“…
Já, hvað er þetta með kaffið?
Alvöru karlmenn drekka bjór og brennivín. Kaffi er fyrir kellingar.
Kellingabækur eru fullar af kaffi. Alvöru karlmenn lesa ekki bækur, og
alls ekki langar bækur. Þeir eru búnir að drekka svo mikið að athyglis-
gáfan dregur ekki lengra en í fjórar línur. Ferskeytlan er þeirra form. Þeir
kasta fram vísum, keyra á jöklum, skjóta hreindýr og sökkva landi.
Kona fer undir vatn.
Vatn til að þvo í þvottinn, vatn til að vaska upp, vatn til að hita í kaffi.
Og vatn til vinna úr rafmagn. Hve táknrænt er það ekki að sögusvið Dala-
lífs, átthagar Guðrúnar frá Lundi, Stífla í Fljótum, skuli hafa horfið undir
uppistöðulón. Fegursta dal landsins var fórnað til að framleiða fegursta
rafmagn landsins. Rétt áður en bókin kom út. Og Þóra í Hvammi, Jón á
Nautaflötum, Lísibet og Borghildur, Lína, Þórður og Ketilríður urðu að
neðansjávarverum í íslenskum bókmenntum. Ósýnilegar á yfirborðinu
en svamlandi um í þjóðardjúpinu, eins og ódrepandi fiskar.
Guðrún Baldvina Einarsdóttir fæddist árið 1887 á Lundi í Fljótum og
fór snemma undir vatn. Eins og allar konur af hennar kynslóð, mennt-
aðar og ómenntaðar, var hún kaffærð af bústýringum og barneignum.
Þrátt fyrir að hafa skrifað frá fermingu brenndi hún allt „hand-
ritadraslið“ daginn sem hún gifti sig, 23 ára gömul. Og sökkti sér í lífið.
Ekki fyrr en seint og um síðir kom upp úr því kafi bók. Fyrsta bindi
Dalalífs kom út árið 1946.
Er það ekki ótrúlegt?
Ímyndum okkur að sem unglingur hafi Guðrún frá Lundi verið fengin
til að passa sveinbarn að nafni Halldór Guðjónsson — síðar Kiljan og
Laxness. Hún er fimmtán ára þegar sá drengur fæðist. Þegar hann
er fimm ára er hún tvítug. Þegar hann heldur út í heiminn verðandi
skáld er hún þrítug þriggja barna móðir. Þegar hann er búinn að skrifa
Vefarann, Sjálfstætt fólk, Sölku Völku, Heimsljós, Íslandsklukkuna og
Atómstöðina … þá byrjar sú gamla loks að gefa út bækur. Og skrifar þó
jafnmargar blaðsíður og hann, áður en yfir lýkur.