Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Side 49
K o n a f e r u n d i r va t n
TMM 2012 · 1 49
búa saman.“ – „Ha? Í alvöru? Eftir allt það sem er á undan gengið? Og
hvað segirðu? Buðu þau Jóni í reisugillið? Djöfussins fokking meðvirkni
er þetta maður.“
Annar lykill er svo líklega hið breiða sjónarhorn. Lesandinn flögrar í
sífellu af burst á bæ, inní baðstofu og út á engjar, eins og fuglinn frjáls. Í
einu vetfangi erum við horfin frá „aðalpersónum“ yfir til vinnufólksins
og fáum álit þess á gangi mála. Þegar gesti ber að garði bíður vinnukonan
jafnan á bakvið skemmu til að ná tali af þeim er þeir halda heim á leið,
og þá fyrst fær fólk að heyra hvað er í gangi á bænum. (Smáatriði eins
og þetta eru dýrmæt innlegg í sögu Íslands.) Og fyrir vikið verður sagan
breiðari þjóðlífslýsing, fjölbreyttari og blæbrigðaríkari, og höfðar til
allra. Höfundur leyfir fleiri en einum að opna sig; líkt og persónur á
sviði stíga þær fram og fá að tjá sig milliliðalaust. Allir eru mannlegir,
enginn er alvondur eða algóður. Höfundurinn er það stór í sér að hann
dæmir ekki börnin sín. Og þetta veldur því líka að við vitum í raun
aldrei hver tekur næst til máls, sem skapar spennu og eftirvæntingu.
Á köflum vitum við varla um hvern sagan er. Höfuðatburði í lífi ungu
hjónanna á Nautaflötum, fæðingu hins feiga stúlkubarns Lísibetar, er
til dæmis aldrei lýst beint heldur fáum við aðeins fregnir af honum í
gegnum tal vinnukvenna á bænum.
Þrátt fyrir almennt „lýsingaleysi“ höfundar minnir frásagnartæknin
því oft á kvikmynd með hröðum klippingum, og jafnvel á nýjustu tísku
í þeim bransa, að segja frá sama augnablikinu frá sjónarhorni margra
persóna, tækni sem við könnumst til dæmis við úr myndum Tarantinos.
Frásögnin af því þegar lýst er með þeim Þóru í Hvammi og Sigurði
hinum rauðhærða í kirkjunni á Nautaflötum er ágætt dæmi um þetta.
Við fáum sjónarhorn Sigurðar, sem fer til messu, sem og vinnukonu hans
Möggu, sem einnig er í kirkjunni, en einnig Þóru sem heldur sig heima.
Þá fáum við líka viðbrögð nær allra kirkjugesta við þessu reginhneyksli.
Þeir flykkjast inn í kokkhúsið að messu lokinni og byrja að hneykslast
hástöfum. Sigurður er kallaður út undir vegg af Jakobi hreppstjóra,
Magga gamla ætlar inn í húsið en hættir við vegna kjaftagangsins sem
þar fer fram. Og hér fáum við bæði sjónarhorn Möggu þegar hún sér
hvar Sigurður er á tali við Jakob, og það hvernig hún hættir við að fara
inn í kokkhúsið, en einnig sjónarhorn Sigurðar þar sem hann ræðir við
Jakob og svo líka sjónarhorn fólksins í kokkhúsinu sem sér Möggu snúa
við í gættinni. Úr verður allt að því kviksjá fremur en kvikmynd, þar
sem sjónarhornin skjótast að lesandanum sem sér í gegnum síðuna og
spegilmynd hennar í þeirri næstu.
Það sem gerir þó útslagið með Dalalíf er náttúrlega sagan sjálf.