Tímarit Máls og menningar - 01.02.2012, Qupperneq 128
D ó m a r u m b æ k u r
128 TMM 2012 · 1
elst upp hjá ömmu sinni við gæsku og
fátækt, skólagöngu sem lýkur í Kenn-
araskólanum, unglingaástum sem og
því, hvernig Elías byrjar að fikra sig
áfram á skáldabraut. Þorsteinn hefur
þann sið að vitna mjög ítarlega í heim-
ildir – mest minnisblöð ýmisleg frá
Elíasi sjálfum, sem hugðist reyndar á
efri árum skrifa bók um ömmu sína og
hafði dregið margt til hennar. Ef til vill
hefði mátt fara sparlegar með þau gögn,
sem og bréf sem síðar eru mikið notuð,
en þau hafa þann ótvíræðan kost að
koma lesandanum í sterka nálægð við
persónur og tíðaranda. Ég nefni til
dæmis skondinn palladóm um Elías
eftir skólabróður hans í Kennaraskólan-
um, þar sem við fréttum ýmislegt um
ungan mann á sannleiksleitarróli ein-
hversstaðar á milli Marx og kaþólsku
kirkjunnar – allt undir yfirþyrmandi
áhrifum frá Halldóri Laxness.
En fróðlegast fyrir framhald þessa
ferils er upprifjun á feiminni hrifningu
Elíasar af ungri stúlku, Jóhönnu Þor-
gilsdóttur, sem heldur fyrir honum vöku
unglingsárin og reyndar fram yfir tví-
tugt. Bæði vegna þess að þessi ófram-
færna ást úr vandræðalegri fjarlægð
gengur aftur í skáldsögu Elíasar Man ég
þig löngum – og svo segir hún sína sögu
um erfiða óvissu Elíasar um sína kyn-
hneigð. Hann kvaðst hneigjast að
báðum kynjum, vera bísexúel – lék sér
reyndar stundum að orðaleiknum: to be
or not to be bí… Og það er Jóhönnusag-
an sem staðfestir það ágætlega að hann
fer með rétt mál – og verður um leið
röksemd gegn þeirri ásökun Þórðar Sig-
tryggssonar, að Elías hafi þóst hafa
áhuga á stúlkum bara til að blekkja
„þann ógeðslega skríl“ sem hann
umgengst (139–141).
Hitt er svo vert að muna, að bísex-
úalitet Elíasar er ekki einhverskonar
helmingaskipti: það eru strákarnir sem
hafa betur. Og hér kemur fyrr eða síðar
að Þórði, sem amma Elíasar hafði fengið
til að kenna drengnum á orgel. Þórður
sat á strák sínum allt þar til amma Elí-
asar var látin og hann 17 ára en þá tóku
þeir félagar upp ástarsamband sem lengi
stóð. Þórður var 34 árum eldri – og sá
gjarna í sambandi þeirra Elíasar gamalt
grískt mynstur – samband meistara og
lærisveins, sem um leið er erótískt og
Þorsteinn gerir nauðsynlega grein fyrir
(146–149). Þorsteinn rekur ekki tíðindi
af þeirra samskiptum fyrr en komið er
fram um 1950. Verður þar þá römmust
lesning tilraun Þórðar til að hrekja frá
Elíasi vinkonu hans með því að skrifa
henni meir en nóg um kynni þeirra Elí-
asar. En Þórður beitti þeirri aðferð oftar
en ekki þegar hann vildi „allt eða ekk-
ert“ í sambandi við unga menn að
hrekja frá þeim kærustur með sönnum
eða upplognum sögum af því hve ræki-
lega hann hefði notið strákanna. Þetta
bréf sætir einna mestum tíðindum í
þeim bardaga með lofi og lasti sem
Þórður á í um og við Elías og þá sem
hann umgengst.
Þorsteinn Antonsson kemst að þeirri
niðurstöðu að þarna sé að hefjast stríð
sem verði svo með ýmsum hætti helsta
orsökin fyrir því að Elías hættir að
skrifa. Þorsteinn veit vitanlega að margt
fleira kemur til greina og getur þess eins
og síðar verður vikið að. En þegar allt er
saman tekið verður Þórður hjá bókar-
höfundi helstur sökudólgur í þessum
efnum – og þá ekki síst samstarf þeirra
Elíasar um texta þann sem Elías skrifaði
upp og birtur er í bókinni Mennt er
máttur. Þorsteinn segir m.a. að eftir
ýmsar sviptingar í einkalífi Elíasar hafi
„kennari hans í erótískum málefnum“
þ.e.a.s. Þórður, náð „á honum taki sem
Þórður sleppti ekki síðan meðan báðir
lifðu. Á sjötta áratugnum batt Þórður
Elías með ritun ævisögunnar tilfinn-