Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Blaðsíða 14
Á r m a n n J a k o b s s o n
14 TMM 2012 · 2
kunnum þau. Málsatvik þekkja sjálfsagt allir: harðvítugar deilur heiðinna
og kristinna standa yfir á alþingi á Þingvöllum (eflaust keimlíkar nýlegum
þingumræðum um Icesaveskuldina og afgreiðslu hennar) þegar maður
kemur ríðandi á stökki og segir frá eldsumbrotum í Ölfusi sem ógni bústað
eins kristna goðans, föður Skapta Þóroddssonar sem kemur næstum jafn
víða fyrir í fornum textum og Snorri – en Skapti var sá þjóðveldismaður
sem lengst var lögsögumaður og hlaut raunar starfið í upphafi sakir þess
að forveri hans varð of hás til að gegna því; þetta var á munnmenntaöld og
raddbönd jafn nauðsynleg lögsögumanni og orkudeplarnir eru íslenskum
háskólamönnum nútímans. Heiðnir menn hafa þá á orði að engin furða sé
að goðin reiðist ýmsu því sem sagt hafi verið á þingi. Samkvæmt Kristni sögu
(frá síðari hluta 13. aldar) segir þá Snorri goði: Um hvað reiddusk guðin þá
er hér brann hraunið er nú stöndu vér á? en einni öld síðar, í Kristni þætti
Flateyjarbókar hljóma orð hans þannig: Hverju voru guðin reið þá er hér
brann jörðin sem nú stöndum vér?
Þannig ríkir engin sérstök samstaða á miðöldum um hvað Snorri nákvæm
lega sagði þennan dag á Þingvöllum en hitt er óumdeilt að með svarinu
stingur hann upp í heiðna menn. Ekki er heldur umdeilt að Íslendingar hafa
löngum kunnað að meta þessa hnyttni, ekki aðeins í miðju gosi árið 2010
heldur einnig árið 1920 þegar Matthías Þórðarson þjóðminjavörður víkur að
orðum Snorra á svofelldan hátt: Orð hans á kristnitökuþinginu um hraunið
og reiði goðanna hafa nú flogið um landið og jafnvel út yfir hafið um níu alda
skeið, og virðast ekki að því komin enn að detta dauð niður.
Engin miðaldaheimild sem tilfærir orðin skýrir hins vegar frekar hvernig
eigi að túlka þau. Það blasir við að þessi retóríska spurning er fjarri því að
vera jafn sakleysisleg og hún gæti hljómað en nákvæmlega hver broddurinn
sé er ekki skýrt í miðaldaheimildum enda kannast allir sem með þær vinna
við það að ritskýring er fremur sjaldgæf í textum þessa tíma og frásögnin
lifir yfirleitt ein; þetta veldur jafnan nokkrum vanda þegar við viljum skilja
hugmyndafræði samtímans út frá norrænum frásagnarheimildum. Það er
til dæmis ekki alveg morgunljóst hvort Snorri skilji uppruna hraunsins á
Þingvöllum jafn vel (eða illa) og við sem nú lifum, þó að þannig hafi þetta
eflaust verið túlkað ofan í okkur flest.
Á síðari öldum hafa menn verið ófeimnir við að sjá í Snorra goða
mann líkan þeim sjálfum sem hæðist að hjátrú og einfeldni. Séra Gunnar
Benediktsson skrifaði grein með titlinum Hverju reiddust goðin? í Tímarit
Máls og menningar árið 1980 og tók orð Snorra sem úrvalsdæmi um
„íslenska hugsun“ sem væri jarðbundin, íhugul og rökræn. Þorleifur Einars
son gat Snorra einnig í ritinu Jarðfræði: Saga bergs og lands (sem út kom
1968) og kallaði orð hans „fyrstu jarðfræðiathugunina“ en þau orð eru
raunar víða eignuð Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi sem, eins og margir
vita, var ein helsta menningarhetja Íslendinga um miðbik 20. aldar og lengi
enn, og eins og þjóðfræðin sýnir okkur draga slíkar menningarhetjur mjög