Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Blaðsíða 18
Á r m a n n J a k o b s s o n
18 TMM 2012 · 2
vera líka að vera sinnar tegundar og þannig hafa menn vanist því að draugur,
tröll og galdramaður sé þrennt ólíkt. Allar þessar verur bera aftur á móti
sama nafn í íslenskum textum frá miðöldum því að eins og ég hef áður bent
á er orðið „troll“ notað um allt þetta á þeim tíma. Þegar ég nefni erindi mitt
hér „inngang að tröllafræðum miðalda“ er ég þannig ekki aðeins að tala
um trunt trunt og tröllin í fjöllunum heldur á ég sannarlega við drauga og
galdramenn, jafnvel einkum og sér í lagi.
Að sjálfsögðu gerðu vísindamenn 19. aldar sér grein fyrir því að það er
munur á lífveru sem er til og yfirnáttúrulegri veru sem er ekki til. Þar með
hefur væntanlega blasað við þeim eins og okkur að það er ekki sjálfsagt mál
að nota svipaðar aðferðir við að sundurgreina verur sem eru til, og verur sem
eru ekki til. Hagsýnin er hins vegar harður húsbóndi. Vísindamanninum
ber að greina og flokkun var löngum helsta greiningartæki þjóðfræðinga.
Og þegar búið er að flokka yfirnáttúrulegar verur 19. aldar liggur beint við
að heimfæra þá flokkun upp á fyrri aldir. Þannig má sjá álfa í Þjóðsögum
Jóns Árnasonar og svo kemur orðið „álfur“ líka fyrir í miðaldaheimildum.
Fyrsta hugsunin hlýtur þá að vera að þessir miðaldaálfar séu eins og álfarnir
hans Jóns. En svo er ekki endilega; margt bendir til að álfar þeir sem birtast
í norrænum miðaldatextum kunni að vera allt öðruvísi skilgreindir og alls
ekki jafn nákvæmlega. Hið sama á við um hugtakið „tröll“ sem reynist við
betri gát vera langt um víðfeðmara á miðöldum en á dögum Jóns Árnasonar
og Maurers. Hversu mjög sem okkur langar til að greina hjálpa dæmin okkur
ekki: dvergur er álfur, dvergur er tröll, tröll er jötunn, jötunn er maður
og ekki nema von að dægurlagasöngvarinn hafi að lokum spurt: eru álfar
kannski menn? Þeirri spurningu ætla ég raunar ekki að svara hér þó að vita
skuld séu reyndar öll þessi tröll menn á einhvern hátt, hvað annað?
Finna má handbækur um yfirnáttúrulegar verur frá ýmsum heimshlutum
með 2000 færslum um hinar og þessar tegundir vætta, allar ef ekki með sína
kennitölu þá með sína sérstöku alfræðibókarfærslu. Þannig eru til zombíar,
vampírur og draugar hver með sína færslu en í raun og veru eru þetta ansi
áþekkar verur með fjarska svipað hlutverk úr ólíkum menningarheimum.
Eins eru til ýmis nöfn yfir sendingar sem galdramenn magna á fólk og leita
á það í svefni. Öll þessi kvikindi hafa þó verið sundurgreind og slík sundur
greining er mikilvægur þáttur vísindastarfsins, það er mikilvægt að átta sig á
því að zombíar koma frá Haítí og vampírur frá AusturEvrópu, en stundum
er líka mikilvægt að hætta flokkun og velta fyrir sér hlutverki verunnar. Það
skiptir sannarlega máli í þessu dæmi að verurnar eru ekki til í raun og veru
og heilastarfsemin sem skapar þær fer öll fram í einni linnéískri tegund,
tegundinni homo sapiens. Sé þetta haft í huga verður hið sameiginlega
stundum ekki síður lýsandi en það sem greinir að.
Og þegar kemur að göldrum nota miðaldamenn ýmis hugtök og ýmsa
merkingarauka, eins og raunar fræðimenn nútímans sem mest rannsaka