Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Side 65
A f v e r k u m o g k ö n g u l ó m
TMM 2013 · 1 65
Þannig er bakgrunninum lýst í smáatriðum, og þar fyrir framan vindur
fram örlögum Hans Castorps og hugmyndafræðilegri viðureign lungna-
sjúklinganna tveggja: Settembrinis og Naphta; annar er frímúrari og
demókrati, hinn jesúíti og autokrati, báðir eru fársjúkir. Yfirvegað háð
Manns leiðir í ljós að sannleikur þessara tveggja spekinga er afstæður;
hvorugur þeirra hefur betur í deilunni. En háðið í skáldsögunni gengur
enn lengra og nær hápunkti í kafla þar sem þeir eru báðir umkringdir
litla áheyrendahópnum sínum, ölvaðir af bjargfastri röksemdafærslu sinni
og fara með rökin út á ystu nöf, þannig að enginn veit lengur hvor þeirra
aðhyllist framfarir og hvor hefðina, hvor er skynsamari, hvor er órökvísari,
hvor er maður andans og hvor maður líkamans. Blaðsíðum saman verður
maður vitni að stórkostlegum ruglingi þar sem orðin tapa merkingunni, og
umræðurnar eru því ofstopafyllri sem skoðunum þeirra er algerlega hægt
að skipta hverri út fyrir aðra. Um það bil tvö hundruð blaðsíðum síðar, í
lok skáldsögunnar (stríðið brýst brátt út), falla allir vistmenn á heilsuhæl-
unum ofan í röklausa og skapvonskulega sálsýki, óskiljanlegt hatur; það
er þá sem Settembrini móðgar Naphta og sjúklingarnir tveir heyja einvígi
sem endar með því að annar þeirra fremur sjálfsmorð; og þá skilur maður
betur að það er ekki hin ósættanlega hugmyndadeila, heldur yfirrökleg
árásargirni, dularfullur og óskýrður kraftur, sem etur mönnum saman og
þeir líta einungis á hugmyndirnar sem skálkaskjól, grímu, yfirvarp. Þannig
inniheldur þessi stórkostlega „hugmyndaskáldsaga“ um leið (einkum fyrir
lesanda nú í aldarlok) skelfilegar efasemdir um hugmyndir sem slíkar, hún er
stórbrotin kveðja til þess tímabils sem hafði trú á hugmyndum og getu þeirra
til að stjórna heiminum.
Mann og Musil. Enda þótt þeir hafi verið fæddir um svipað leyti tilheyrir
fagurfræði þeirra tveimur ólíkum tímabilum í sögu skáldsögunnar. Báðir
eru þeir gríðarlega vitsmunalegir skáldsagnahöfundar. Í skáldsögu Manns
kemur þessi vitsmunalegi þáttur fyrst og fremst fram í samtali hugmynda
sem settar eru fram fyrir framan sviðsmynd lýsingaskáldsögu. Í Manni án
eiginleika kemur hann stöðugt fram; andspænis skáldsögu Manns er hér á
ferðinni hugleiðingaskáldsaga Musils. Atburðirnir í henni eru líka staðsettir
á tilteknum stað (Vínarborg) og tilteknum tíma (þeim sama og í Töfrafjall-
inu: rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina), en meðan Davos er lýst í smáatriðum
hjá Mann er varla minnst á Vínarborg hjá Musil, höfundurinn hefur ekki
einu sinni fyrir því að lýsa götunum, torgunum, görðunum þar (tækinu
til að framleiða blekkingu raunveruleikans er ýtt elskulega til hliðar). Við
erum stödd í austurrísk-ungverska keisaradæminu en það er ævinlega
nefnt með fáránlegu uppnefni: Kakanía. Kakanía: keisaraveldið leyst upp,
gert almennt, dregið saman í nokkrar grundvallarkringumstæður, keisara-
veldinu umbreytt í háðslegt módel af keisaraveldinu. Þessi Kakanía er ekki
bakgrunnur skáldsögunnar eins og Devos hjá Thomas Mann, það er eitt af
viðfangsefnum skáldsögunnar; því er ekki lýst, það er greint og hugsað.