Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Síða 24
H j a l t i H u g a s o n
24 TMM 2015 · 3
afarkosti. Þá gætir nokkurra trúarlegra vísana í verkinu. Má þar nefna
samlíkingu á grótesku gestaboði nautnaseggsins Kristjáns G. sem er eitt af
hreyfiöflum sögunnar við agape eða kærleiksmáltíð frum-kristninnar sem á
rætur að rekja til síðustu kvöldmáltíðar Krists. Hæst ber þó að Sigrún er aug-
ljós Jobs-gervingur og undir bókarlok verður ljóst að Vetrarferðin er í raun
nútímaútgáfa af Jobsbók Gamla testamentisins.
Í Vetrarferðinni koma þrír prestar við sögu og er einn þeirra sannsögu-
legur, séra Bjarni Jónsson (1881–1965) sem þjónaði dómkirkjunni 1924–1951.
Hér verður þó aðeins staldrað við einn, séra Ásgrím aðstoðarprest séra
Bjarna. Hann er ein af aðalpersónum sögunnar á þann hátt að fjórði og næst-
síðasti „hluti“ eða bók verksins ber nafn hans.26 Hann kemur þó við sögu í
öllum hlutunum. Ásgrímur á það sammerkt með Katrínu í Náðarkrafti að
útliti beggja er lýst öfugt við prestana í Efstu dögum og Englaryki. Ásgrímur
er ekki prestlegur maður:
Hann [Sigurður lögmaður] horfði á myndina af séra Ásgrími […], hakan hvíldi
á hvítum prestakraganum, undir augunum voru húðpokar og það var harð-
neskjuvottur í svipnum þótti honum, eins og þar væri ekki guðsmaður heldur löngu
genginn hvíthærður konungur sem hefði tekið sér guðsvald með því að ráðskast í
málum kirkjunnar. (324)
Ásgrímur er annars staðsettur eins og vera ber með prest í Reykjavík á
5. áratug liðinnar aldar í æðri millistétt og umgengst þar bæði farísea
og bersynduga eins og gengur. Sem prestur Sigrúnar, þó tæpast sé hann
sálusorgari hennar, hefur Ásgrímur annars sömu stöðu í sögunni og vinir
Jobs í hinni „kanónísku“ eða biblíulegu Jobsbók sem reyndu að tala um fyrir
honum. Lengi framan af gengur guðfræði hans enda út á að þegar dýpst sé
skyggnst standi Guð að baki öllu sem verður, bæði illu og góðu, en það er
einmitt sá skilningur sem fram kemur í Jobsbók. Við kvöldmáltíð Kristjáns
G. lýsir Ásgrímur lífsskoðun sinni, heims- og guðsmynd svo: „Ég vil halda
því fram að ekkert í heiminum gerist án vilja Guðs. Ég vil halda því fram að
jafnvel í óreiðu lífsins sé regla, ef ég má komast svo að orði.“ (73)
Drifkrafturinn í tilveru hans var framan af sú trú
[…] að sjá megi vilja Guðs að verki í heiminum, […] Að ekkert á jörðinni gerist
án þess að hann viti og leyfi það og því megi segja: Guð heimilar að hið illa gerist.
Einungis til þess að laða fram hið góða! (197)
Slíka trú taldi Sigurður lögmaður „reist[a] á bjargi, sé horft á veröldina eins
og hún er í dag“, þ.e. í miðju stórstríði sumarið 1943. Í þessu er trú Ásgríms
andhverfa við guðsmynd Sigrúnar sem kveðst aðeins eiga reiðina eftir ef Guð
reynist slíkur sirkusstjóri.
Ásgrímur endurskoðar þó síðar þessa afstöðu að nokkru er hann glímir
við gátuna um hvort Guð geti jafnvel staðið að baki sjálfsvígum og segir þá: