Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Síða 114
G u ð m u n d u r S . B r y n j ó l f s s o n
114 TMM 2015 · 3
þau á að heimurinn er manninum áskorun og í honum er að finna einskonar
takmark, framtíðaraugnablikið: „Nú er hann loksins á leið út í hinn stóra
heim sem hann hafði farið svo víða um hugförum.“48 Og hann hefur ekki
aðeins látið sig dreyma dagdrauma, hann hefur „dulist samferðamönnum
sínum“ og lifað „tvöföldu lífi“, hann hefur verið að skrifa.
Þannig má segja að Thor fari að dæmi Frans frá Assisi. Hann varpar „öllu“
frá sér og sinnir köllun sinni. Borgaralegt vafstur er lagt til hliðar, Thor
leggst í ferðalög og virðist láta sér fátt um finnast það borgaralega öryggi
sem hann skilur eftir heima. Það er því ekki fjarri lagi, í ljósi tengslanna við
hina gnóstísku hefð, að halda því fram að bæði Frans og Thor hafi tekið til
sín, með sínum hætti, þau orð sem eignuð eru Frelsaranum í hinu gnóstíska
Tómasarguðspjalli:49 „Hagið yður að hætti förumanna!“50
Ljóst er að eitthvað merkilegt gerist í hugskoti Thors frammi fyrir helgi
heilags Frans. Hann reynir að koma því í orð sem þarna á sér stað og það
gengur mun betur en frammi fyrir málverkum Rembrandts, enda skilur
hann að hér er raunveruleg mystík: „Þarna er svo sterk mystik að enginn
getur rofið hina helgu þögn.“ Þegar textinn er skoðaður í heild má greina
togstreitu á milli þessarar mystíkur og raunheimsins. Thor kallar jafnvel
fram þá sem ekki virða helgi staðarins og þar er það hin hugsunarlausa
grimma veröld sem talar, hinn illi efnisheimur, fáfræðin.
Ef skipulega er farið í gegnum textann kemur eftirfarandi í ljós: Helgin
getur ekki verið meiri, farið er niður undir tvær kirkjur og inn í hvelfingu
heilags Frans í litla kapellu „þar sem þögnin ríkir, og enginn myndi tala
þó þess hefði ekki verið óskað menn þegðu.“ Merkingaraukinn liggur í
þögninni.
En þarna liggur líka sagan, bæði persónusaga og saga hugmyndarinnar
um æðra tilverusvið – og jafnvel þetta tilverusvið sjálft. Þarna „fannst kista
hins helga manns“ og þar er nú „skrín“ hans og umhverfis altarið eru jarð-
neskar „leifar fylgismanna“ heilags Frans. Yfir þessum stað hvílir helgiblær,
ára sögunnar.
Áran er á svipuðum slóðum í fræðum Walters Benjamin og sagan, mann-
kynssagan. Hún verður til í samræðu tíma og rúms: „Heilaspuni í tíma og
rúmi: Einstæð sýn í fjarska, hversu nálægt sem það sem horft er á kann að
vera.“51 Í upplifun listarinnar og skynjun árunnar er sótt til fyrri tíðar, í guð-
fræði listarinnar, en þar er mystík sem ekki verður skilin nema í samhengi
við gildi þess að skoða og dást að. Hvort tveggja á við þarna í helgidómi Frans
frá Assisi. Þá andrá sem maður lifir þegar maður nær að fanga áruna, mætti
því sjá sem einskonar messíanskt augnablik er manni berst úr einhverri
fjarvídd fortíðarinnar. Eitthvert slíkt augnablik er að finna í reynslu Thors
á þessum helga stað. Það sem fyrir augu ber kallar á tilbeiðslu eða átrúnað.
Þarna liggur ósvikið dýrkunargildi, svo enn sé vísað til Benjamins. Það
verður fagurfræðilegur og guðfræðilegur samsláttur við skrín Frans frá Ass-
isi. Og Thor Vilhjálmsson skilur það og þess vegna ávítar hann þá sem ekki