Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 51
TMM 2017 · 1 51
Eiríkur Örn Norðdahl
Tvö ljóð
LJÓÐ UM HOLD OG FRJÓSEMI ÞESS
Hold þitt er slitið, upprist og uppreist en þú ert frjó; þú ert sigg, þú ert hrúður
á sári, þú ert ígerðir, smyrsl og holdfúi, grafir botnlanga, forhúða og fóstra.
Þú ert frjó þrátt fyrir uppskurði, inngrip og djúpa skurði upp báða handleggi,
yfir axlir og niður undir brjóst svo út renna tveir púðar óvart, niður kvið og
hverfa ofaní gapandi keisaraskurð, þaðan sem börn þín fæðast loks óbyrja
með fitukeppi í heilastað og mjólkurkirtla í hjartastað.
Þú ert frjórri en líkami þinn, frjórri en musteri úrvinda sálna; þú leggst
undir hnífinn til þess að sleppa þeim út – einsog blóðugri fitu úr þarmstuttri
móður, hárlausum fugli úr húðflegnum lófa – til þess að sprauta mannkyns-
söguna þrútna af bótúlíneitri, til þess að brjóta niður fuglinn eitt óskabein í
einu, til þess að muna að þú finnur hvergi til, skoru fyrir skoru, skurð fyrir
skurð upp alla limi í senn, þína og annarra.
Annars ertu bara dofin.
Þú ert frjó og skapandi, skrunar niður greinar um heilbrigða kynhegðun,
hegðunarmynstur lyklabarna, félagsmiðlarytma nútímans og leikföng sem
skipta litum; kinkar kolli taktfast með kokið fullt af hlandvolgu holdi og
tyggur matinn þrjátíu sinnum svo hann meltist betur; þú ert frjó og þú
verður alltaf svöng þegar einhver grípur í spikið á þér; þú ert frjó og þú
étur einsog hobbitti; frjó og verður alltaf gegndrepa þegar einhver sökkvir
fingrunum í lærin á þér; frjó og það styttist í sprungnar spangir, blóðugar
barneignir, þéttriðna sauma og blóðlaus tíðahvörf; þú ert frjó, kviðurinn
sprettist upp svo út seytlar kekkjótt sæði og allar skálar í húsinu fyllast af
hlaupköllum, sellerístönglum og laxerandi ídýfum.
Þú ert frjó og þú missir útlimi, steypist út í þrymlabólum og grefur sköp
þín í glingri; þú ert frjó og þú stækkar, frjó og þú dregst saman, frjó í 23%
aukinni hættu á hjartasjúkdómum, 17% aukinni hættu á áunninni sykur-
sýki, 38% aukinni hættu á smitandi sjálfsmyndarbrenglun, frjó og fögur, frjó
og getnaðarleg, frjó og sjálfri þér næg.
Þú ert frjó og þér stendur á sama.