Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 11
M é r þ y k i r m j ö g g a m a n a ð v e r a b a r n
TMM 2017 · 1 11
AFTURHVARF
eftir regnið
myndaðist regnbogi ekki ólíkur ömmu minni
mér leið eins og ég gæti sofnað
í fanginu á honum
og vaknað aftur við lyktina af
pönnukökum
***
Takk fyrir að koma í viðtal við mig fyrir Tímarit Máls og menningar, kæri
Sverrir Norland. Viltu segja mér hvar þú ert fæddur og hvenær, hvað heitir
mamma þín, hvað heitir pabbi þinn, áttu systkini, hvað heita þau – ef þú
kærir þig um að svara því – hvar í röðinni ertu fæddur og hvar ólstu upp?
Takk, með ánægju. Ég er fæddur í Reykjavík þann 17. maí árið 1986.
Mamma heitir Sigríður Lilja Signarsdóttir, ég held jafnvel að pabbi hennar
sé sá eini sem heitið hafi Signar á landinu, ekki Sigmar. En faðir minn heitir
Jón Norland og ég á tvo bræður sem heita Kristján og Guðmundur Óli. Ég
er elstur og alinn upp í Hlíðunum í Reykjavík – ég þori ekki að fara á flug á
meðan þú vélritar.
En ég er vön að gera þetta svona, skrifa upp eftir fólki.
Af því það er pirrandi að vélrita síðan allt upp?
Ókey, best ég brjóti odd af oflætinu, frelsi fingurna, ýti á upptökutakkann.
Hvaðan af landinu ertu ættaður, Sverrir?
Já sko, ég er Reykvíkingur í húð og hár en á vissulega rætur að rekja
til ýmissa staða á landinu eins og gengur og gerist. Í föðurætt eru það
Suður-Þingeyjarsýsla (Gautlönd í Mývatnssveit) og Vestur-Húnavatnssýsla
(Hindisvík á Vatnsnesi). Þetta er ætt Sverris afa míns og alnafna. Af því að
þetta er bókmenntatímarit má geta þess að hann er reyndar fæddur í Noregi
(enda þótt foreldrar hans hafi verið alíslenskir), á Háramarsey (Haramsöy),
þar sem Grettir Ásmundarson réð niðurlögum berserkjanna tólf eins og lýst
er í Grettis sögu, 19. og 20. kafla. Margrét amma mín á ættir að rekja norður
til Brettingsstaða á Flateyjardal og í Kelduhverfi. Einnig til Snæfellsness og
Kaupmannahafnar. Hin amma mín, Anna Jónasdóttir, er fædd á Skálum á
Langanesi, en byggð þar lagðist af þegar hún var níu ára og gekk hún með
móður sinni og einni kú til Þórshafnar þar sem fjölskyldan settist að. Nú
ku það að mestu aflagt: að níu ára stúlkur þrammi um sveitir landsins með
klaufdýr í taumi. Faðir hennar fór sjóleiðina með hin systkinin. Signar, afi
minn og móðurfaðir, var Norðmýlingur, fæddur á Bakka við Bakkafjörð í
Norður-Múlasýslu. Er þetta ekki orðið nokkuð gott?