Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 17
M é r þ y k i r m j ö g g a m a n a ð v e r a b a r n
TMM 2017 · 1 17
mér finnst gaman að vera miðpunkturinn en ég þarf líka mjög mikið að vera
einn.
***
Hvort var skemmtilegra að vera barn eða unglingur?
Mér fannst örugglega skrítið að vera unglingur en ég er ennþá barn og
ég var líka barn sem unglingur. Mér þykir mjög gaman að vera barn. Því
fylgir viss sársauki og svona yfirþyrmandi hugsanir einsog: Alheimurinn
er óendanlegur, úff, hvað merkir það? Ég mun deyja – en hvað er dauðinn?
Og hvað gerist ef allir í fjölskyldunni minni hverfa? Áríðandi og erfiðar
spurningar sem börn eiga oft erfitt með að ýta frá sér. En listamenn eru börn
og neita að fullorðnast. Plús að ekkert er nokkru sinni fullorðið – orðið að
fullu. Það vita börn, það vita listamenn.
Varstu mömmustrákur, pabbastrákur?
Hvorttveggja. Ég á báðum foreldrum mínum svo margt gott að þakka.
Og nafna mínum, honum afa, og einkum þó líka ömmum – ömmur eru
burðarstoðir heimsins.
Hafa foreldrar þínir haft áhrif á bækurnar þínar?
Örugglega og bara einsog allt og allir í kringum mig. Pabbi er mikill
íslenskumaður. Í mörgum grunnskólum er kennt eftir hann íslenskurit,
Kennslubók í málvísi og ljóðlist, ég myndskreytti nýjustu útgáfu hennar. Ég
á honum mjög margt að þakka hvað varðar tilfinninguna fyrir málinu en ég
þurfti líka að brjótast undan ægivaldi tungumálsins og hans og leyfa mér að
skrifa vitlaust og flýja reglurnar. Mitt er ekki að halda tungumálinu ósviknu
heldur að komast á þann stað að segja sögu – það er sagan sem skiptir máli,
ekki tungumálið. En pabbi hefur haft mikil áhrif á það að ég skrifaði.
Hefur mamma þín haft áhrif á femínísk sjónarmið þín sem eru augljós af
ritum þínum og viðtölum?
Mamma er bæði hörkutól og kærleikshnoðri. Útivinnandi dugnaðarforkur
og heimavinnandi stoð og stytta. Áhrifin eru helst óbein: ég hef alltaf dáðst
að því hvernig heimurinn leikur í höndunum á henni.
Við karlmenn erum, sagnfræðilega séð, býsna flinkir í að mölva heiminn,
til dæmis með því að heyja styrjaldir, og á meðan heyja konurnar hið raun-
verulega stríð: ala upp börn, glíma við dauðsföll í fjölskyldunni, fæða heim-
ilisfólkið – og harka af sér. Karlar farga, konur bjarga.
Wislawa Szymborska orti um þetta í fínu ljóði, Endirinn og upphafið: eftir
sérhvert stríð þarf einhver að laga til. Og okkar eigin Ingibjörg Haraldsdóttir,
sá frábæri þýðandi og skáld, blessuð sé minning hennar, var á svipuðum
slóðum í ljóðinu Kona þegar hún lýsti antíklímaxi stórbokkafundanna: þá