Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 70
M i c h e l H o u e l l e b e c q
70 TMM 2017 · 1
gaf sig fyrst í Frakklandi, það man ég vel, þegar Guillaume Dustan lést árið
2005. Hatur þess baráttufólks sem myndar hreyfinguna Act Up sefaðist
ekkert við andlát hans og sumt af því hikaði ekkert við að ráðast á hann í
blöðunum strax daginn eftir að hann lést. Það sama gerðist fyrr á þessu ári
þegar Maurice Dantec lést. Og þegar kemur að mér verður það enn verra, það
er alveg hægt að spá því.
Margir franskir blaðamenn koma til með að fagna dauða mínum ákaft.
Og ég hefði svosem ekkert á móti því að horfa upp á sum frönsk dagblöð fara
á hausinn. En það er lítil von til þess því dagblöð í Frakklandi njóta stuðnings
hins opinbera, sem mér finnst raunar vera einhver óréttlætanlegustu og
hneykslanlegustu ríkisútgjöldin í því landi. En það er þó ekki alveg útilokað
vegna þess að sum dagblaðanna hafa misst gríðarmarga lesendur undanfarin
ár. Allir vinstrisinnuðu fjölmiðlarnir, það er að segja velflestir fjölmiðlar í
Frakklandi, berjast í bökkum vegna þess hve mjög lesendum hefur fækkað.
Almennt séð er vinstristefnan í Frakklandi augljóslega að geispa golunni og
sú þróun hefur orðið enn hraðari eftir að François Hollande komst til valda.
Þetta er meginástæðan fyrir því að vinstrið er orðið svona harðskeytt og
grimmt. Þetta er gamla sagan um dýrið sem lent hefur í gildru, er dauðvona
og verður ansi hættulegt.
Nú er sennilega nauðsynlegt að útskýra aðeins hvað það er sem tilvist mín
og vinsældir bóka minna ógnar, og það svo mjög að sumir óska þess í raun
og veru að ég deyi. Í þessu sambandi er oft gripið til hugtaksins „pólitískur
rétttrúnaður“ en þess í stað langar mig að stinga upp á hugtaki sem er aðeins
öðruvísi, það sem ég kalla „nýja framfarahyggju“. Nýja framfarahyggjan var
einna best og ítarlegast útskýrð árið 2002 þegar Daniel Lindenberg sendi frá
sér litla bók, rúmlega sjötíu blaðsíður að lengd, sem nefnist „Áminning“ og
undirtitillinn er „Úttekt á nýja afturhaldinu“. Ég var meðal þeirra sem var
borinn sökum í bókinni sem einn helsti „nýi afturhaldssinninn“.
Mér fannst þetta fremur undarlegur undirtitill á sínum tíma. Ég hafði
á tilfinningunni að höfundurinn væri með þessu að segja að „nýju aftur-
haldssinnarnir“ hefðu gert sig seka um að koma með ádeilu. En einhvern
veginn fannst mér að það væri ég sem væri að fá á mig ádeilu og að með
þessu væri verið að segja: „Þú gleymdir að vera vinstrisinnaður, athugaðu að
þú getur enn tekið þig á.“
Þessi bók var svo endurútgefin í ársbyrjun 2016. Á kápunni er rauður
borði og á honum stendur: „Ritgerð sem varar okkur við“, og í henni er „áður
óbirtur eftirmáli“ eftir höfundinn sem er ansi drjúgur með sjálfan sig eins
og fram kemur í eftirfarandi tilvitnun. „Þær voru alveg ótrúlegar, árásirnar
sem þessi bók sem sumir kölluðu „kver“ varð fyrir þegar hún kom út árið
2002. Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar. Tilgáturnar sem ég setti
fram á sínum tíma þrátt fyrir almennar efasemdir í minn garð hafa þó reynst
réttar. Þeir sem kölluðu mig „rannsóknarréttardómara“ eða „bullukoll“ eru