Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 44
B j ö r n H a l l d ó r s s o n
44 TMM 2017 · 1
hinum megin. Fólki hafði sennilega ekki litist á tilhugsunina um að hægt
væri að sniglast um bakatil hjá því.
„Ég ætla ekki að gera það hér,“ sagði hann. „Ég er búinn að finna stað. Það
er samt svolítið langt í burtu og fyrst verðum við að koma því þangað.“ Hann
setti annan fótinn ofan á sjónvarpið eins og veiðimaður í Afríku að stilla sér
upp fyrir ljósmynd við skrokkinn á nýskotnu dýri. „Þetta væri ekkert mál ef
við værum með hjólbörur. Á pabbi þinn hjólbörur?“
„Nei,“ sagði ég og bætti svo við, „við erum nýflutt hingað,“ til að afsaka
mig.
„Við verðum að redda hjólbörum,“ endurtók hann. „Veistu hvort einhver
nágranni ykkar á hjólbörur?“
Ég hristi hausinn. Ég hafði gert ráð fyrir að hann væri úr hverfinu en það
var ólíklegt úr því að hann var að spyrja út í nágrannana. Á sumum görð-
unum voru há grindverk með hliði eða hurð og hann hóf að ganga á milli og
gægjast í gegnum rifurnar.
„Hjálpaðu mér að leita,“ sagði hann. „Ef þú sérð hjólbörur þá get ég klifrað
yfir og sótt þær. Við skilum þeim seinna.“
Ég gerði eins og hann sagði og hljóp á milli girðinganna mín megin í
von um að finna hjólbörurnar á undan honum. Loks sá ég glitta í stál í háu
grasinu og gaf frá mér óp af spenningi. „Ég fann þær!“ kallaði ég. Hann
kom á harðahlaupum til mín og ýtti mér til hliðar til að gægjast í gegnum
glufuna á dyrunum. Svo sneri hann sér að mér, skælbrosandi. „Fullkomið!“
sagði hann. Hann ýtti öxlinni í hurðina en hún haggaðist ekki. „Gefðu mér
fótstig.“ Ég beygði mig niður og fléttaði greipar. Hann setti annan fótinn í
lófann og studdi sig með báðar hendur á bakinu á mér. Þegar hann steig í
rétti ég úr mér og ýtti á eftir af öllum kröftum og honum tókst að ná taki
efst á girðingunni og krafsa sig upp yfir toppinn. Ég heyrði hann lenda með
dynki hinum megin. Það var andartaks þögn og svo heyrði ég að boltinn
á hliðinu var dreginn til baka. Hurðin opnaðist og hann kom út, labbandi
aftur á bak og með hjólbörurnar í eftirdragi.
„Núna verður þú að hjálpa mér,“ sagði hann.
Sjónvarpið var miklu þyngra en það leit út fyrir að vera. Hjólbörurnar ultu
alltaf á hliðina þegar við reyndum að koma því upp í. „Varlega,“ másaði hann,
„passaðu að brjóta ekki skjáinn.“ Á endanum hafðist það. Hann vildi leggja
strax af stað en ég hafði áhyggjur af því að einhver myndi sjá okkur og halda
að við værum að stela svo að ég stakk upp á því að fela sjónvarpið undir
gömlu heyi sem lá í haugum allt í kring. Stígurinn var fullur af slíku garða-
rusli en þar var líka að finna gamla stóla með rifnu áklæði og morknaðar
rúmdýnur og fleira á borð við sjónvarpið sjálft. Hann var stórhrifinn af hug-
myndinni og horfði á mig aðdáunaraugum á meðan við söfnuðum saman
heyi í heitum og rökum klumpum og hentum yfir sjónvarpið. Jörðin undir