Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 143
U m s a g n i r u m b æ k u r
TMM 2017 · 1 143
fram að tónlist hans hefði haft meiri
áhrif síðustu ár en verk Schönbergs. Í
þessu sambandi er „Tapíóla“ oft nefnd
sérstaklega.
Það er talið til hæfis að enda greinar
eins og þessa með einhverjum skammti
af nöldri, þar sem það er tíundað sem
greinarhöfundi finnst vanta. Um Hildi-
gerði frá Bingen segir Árni: „Ekki er víst
að verk Hildigerðar hafi nokkru sinni
ómað utan þeirra klausturveggja sem
umluktu hana“, en hann hefði mátt
segja til viðbótar að þetta fékk hún
rækilega bætt á tuttugustu öld og síðar
þegar þessi verk náðu ótrúlegri
útbreiðslu og hans heilagleiki páfinn í
Róm útnefndi hana „Doctor Ecclesiae“.
Um „impressionisma“ hefði mátt taka
það skýrar fram að orðið er ekki til
komið af óljósum tengslum við myndlist
samtímans – sem Debussy var reyndar
mikill áhugamaður um – heldur tengist
það meðferð hans á flóknum og breyti-
legum hljómum, hann „málar“ með alls
kyns tilbrigðum við þá eins og þeir séu
blæbrigði lita. Þetta má sjá víða, t.d. í því
hvernig stefið mjúka í 16. takti í sjöundu
prelúdíunni í Préludes, Deuxieme Livre
(„… La terrasse des audiences au clair
de lune“ eða „Áheyrnarsvalirnar í tungl-
skini“) kemur aftur í 25–27. takti en þá
með mestu mögulegu fjarlægð milli
hljóma í hægri og vinstri hendi, dýpst
niðri og hæst uppi með tómi á milli,
þannig að það fær skyndilega – „pp
subito“ stendur í nótunum – dulráðan
blæ, og heyrist loks í 34. og 35. takti, en
þá í fylgd með aukalaglínu þannig að úr
verða harla ómstríðir hljómar. Þessu
svipar mjög til litablöndunar impress-
ionista. Ef menn vilja svo við hafa geta
þeir litið á þetta sem sams konar
„mynd“ af tunglskini og málverk Monet
af framhlið dómkirkjunnar í Rúðuborg.
Loks verður að geta að ég sakna
fáeinna tónskálda sem mér hefði þótt
rétt að væru nefnd, svosem Marin
Marais sem nú er genginn í endurnýjun
lífdaganna, Vierne og Widor, höfunda
orgelsymfónía sem hljóma stundum í
Hallgrímskirkju, eða þá Gustav Holst,
og svo má minna á að til eru söfn af
dönsum frá miðöldum til að leika á
hljóðfæri undir alvöru böllum, eitt
þeirra sennilega frá hirð Lúðvíks helga
Frakklandskonungs, 1214–1270. Ef afrit
af því hefði borist til Noregs hefði Sturla
Þórðarson getað dansað „estampie“ eftir
því til að hvíla sig frá ritun Hákonar-
sögu. En þetta eru aukaatriði.