Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 28
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
28 TMM 2017 · 1
Kristín: Takk fyrir, kæra vinkona mín, gott að heyra, ég borða upp úr
ísskápnum á eftir. Ertu svangur, Sverrir?
Sverrir: Nei, ég borðaði svo góðan morgunverð.
Kristín: Þórdís, þetta er maðurinn sem kenndi okkur að steikja haframjöl
upp úr kókosolíu.
Vinkona mín: Takk fyrir, ráðagóði. Veist þú þá kannski hvar maður kaupir
gallabuxur?
Sverrir: Nei, því miður, ég er síðasti maður til að vita það.
Vinkona mín: Old Navy?
Kristín: Já.
Vinkona mín: Nú fer ég að kaupa gallabuxur.
Kristín: Sjáumst klukkan tvö.
Þórdís fer.
***
Í framhaldi af spurningunni um uppáhaldsorðið, má ég spyrja þig hver er
uppáhaldsliturinn þinn og -blóm?
Nei, en þú getur hins vegar spurt konuna mína
Viltu spyrja Cerise og fá svörin hennar að láni?
Nei, þá er einsog ég sé að skýla mér á bakvið hana. Hún er ekki mikið
fyrir að hafa sig í frammi. Svo á ég margar sögur þar sem hún kemur fyrir í
breyttri mynd, ég veit ekki hvað henni finnst en hún er bara búin að venjast
því.
Færðu leyfi?
Nei. Hún getur hvort sem er, líkt og nær allt mannkyn, ekki lesið íslensku.
Þessi líking þín hreif mig: „… myrkur sem var svartara en ástarjátning á
útdauðu tungumáli …“ Þú sparar líkingar og þannig bregður manni meir
við þegar þær birtast í textanum. Kona þín er frönsk.
Já, ég veit ekki hversu algengt það er hjá íslenskum höfundum að makinn
skilji ekki bækurnar manns. Hún hefur lesið eitthvað smáræði sem þýtt
hefur verið á ensku og ég segi henni stundum frá því sem ég er að skrifa –
ég ætla alltaf að þýða það fyrir hana en mér finnst erfitt að vaða í gegnum
eitthvað sem ég hef skrifað á íslensku, betra væri að frumskrifa það á ensku.
Ég lifi í þremur tungumálum: frönsku, ensku og íslensku. Franskan mín
er ekkert sérlega góð en skilningurinn hundrað prósent og Cerise talar
stundum við mig á frönsku þó að við tölum líklega mest saman á ensku og
búum þar að auki í enskumælandi landi. Enska er ekki beint lengur einsog
erlent tungumál fyrir mér, hvorki að hlusta á hana eða tala. Ég hef farið í
gegnum löng tímabil þarsem enginn í kringum mig skilur það sem ég skrifa.