Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 60
60 TMM 2017 · 1
Flannery O’Connor
Síðbúinn fundur fjandvina
Soffía Auður Birgisdóttir þýddi
Sash hershöfðingi var hundrað og fjögurra ára gamall. Hann bjó hjá Sally
Poker Sash, sonardóttur sinni, sem var sextíu og tveggja ára og bað þess á
hnjánum á hverju kvöldi að hann fengi að lifa þar til hún hefði útskrifast
úr háskólanum. Hershöfðingjanum stóð nokkuð á sama um útskriftina en
sjálfur efaðist hann ekki andartak um að hann mundi lifa það að sjá hana.
Að lifa var orðið að þvílíkum vana hjá honum að hann gat ekki með nokkru
móti ímyndað sér annars konar ástand. Æfing fyrir útskrift var ekki bein-
línis skemmtun að hans skapi, jafnvel þótt þess væri vænst að hann sæti uppi
á sviðinu í einkennisbúningnum, eins og hún ítrekaði. Hún sagði að nem-
endur og kennarar myndu ganga saman fylktu liði í síðu skikkjunum sínum
en það myndi enginn komast í hálfkvisti við hann í einkennisbúningnum.
Þetta vissi hann fullvel, án þess að hún segði honum það, og hvað varðaði
þessa fylkingu þá mátti hún þramma til helvítis og aftur til baka án þess að
hann myndi kippa sér upp við það. Hann hafði gaman af skrúðgöngum sem
skörtuðu uppblásnum farartækjum með fegurðardrottningum innanborðs;
ungfrú Ameríku, ungfrú Daytona Beach og drottingu baðmullariðnaðarins.
Hann hafði enga þörf fyrir fylkingar og kennarafylking var álíka niður-
drepandi og fljótið Styx, að hans mati. Hins vegar var hann alveg til í að sitja
uppi á sviðinu í einkennisbúningnum sínum svo allir gætu horft á hann.
Sally Poker var ekki eins sannfærð og hann sjálfur um að hann myndi
lifa fram yfir útskriftina. Engin merkjanleg breyting hafði verið á honum
síðastliðin fimm ár en hún hafði á tilfinningunni að eins og svo oft áður
yrði hún svikin um þessa sigurstund. Undanfarin tuttugu ár hafði hún
sótt sumarnámskeið í háskólanum vegna þess að þegar hún byrjaði sjálf að
kenna þekktust engar gráður. Í þá daga hafði allt verið eðlilegt, að hennar
sögn, en ekkert hafði verið eðlilegt síðan hún varð sextán ára og síðustu
tuttugu sumur, þegar hún hefði með réttu átt að njóta hvíldar, hafði hún
þurft að burðast með koffort í steikjandi hita til Kennaraskólans. Samt sem
áður hafði hún, þegar hún sneri aftur um haustið, alltaf hagað kennslu sinni
á nákvæmlega sama hátt og hún hafði lært að ekki ætti að kenna, það var
hennar milda hefnd, sem fékk þó ekki fullnægt réttlætiskennd hennar. Hún
vildi að hershöfðinginn yrði viðstaddur útskriftina hennar vegna þess að
hún vildi sýna hvað hún stæði fyrir, eða, eins og hún orðaði það, „hvað hún