Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Blaðsíða 49
B a r n a l æ t i
TMM 2017 · 1 49
það venjulega til að sýna að maður eigi rétt á einkalífi í hennar húsum, eða
svo segir hún.
„Hvar hefur þú verið?“ spurði hún, hendurnar krosslagðar.
„Bara úti. Að skoða hverfið.“
„Pabbi þinn er úti að leita að þér. Hann er búinn að keyra út um allt. Ég
er búin að vera hér heima alveg viti mínu fjær af hræðslu. Ég hélt að eitthvað
hefði komið fyrir. Hvar ertu búin að vera?“
Ég þagði.
„Anna Dís, hvar varstu!“
„Bara úti. Í göngutúr.“
Hún beið þess að ég segði meira en ég hafði engu við að bæta. Mig langaði
ekki að ljúga að henni en vissi að ég myndi gera það ef þess þyrfti, ef hún
spyrði mig aftur. Í staðinn sagði hún: „Þú verður að láta okkur vita hvert þú
ert að fara þegar þú ferð út. Þú veist það.“ Handleggirnir féllu niður að síðum
og krosslögðust svo aftur. Ég sá hvernig ímyndunaraflið hafði leikið lausum
hala og hún séð allt hið versta fyrir; að ég hefði fallið í gjótu eða verið hrifsuð
inn í bíl af barnaníðingi. „Við þekkjum engan hérna. Við höfðum ekki hug-
mynd um hvert þú gætir hafa farið.“ Henni var svo létt, hún þurfti að halda
aftur af sér til að koma ekki til mín og faðma mig og fyrirgefa mér allt um
leið. Undir erminni á úlpunni minni kleip ég í laumi í þunnt holdið yfir
æðunum og sneri upp á þar til sársaukinn var óbærilegur. Mér vöknaði um
augun og reyndi að vera grafkyrr svo að tárin rynnu ekki niður kinnarnar.
„Ég ætlaði ekki að vera svona lengi. Það var svo bjart úti. Ég vissi ekki að
klukkan væri orðin svona margt.“
„Hvar er úrið þitt?“
„Á skrifborðinu. Það er óþægilegt að vera með það. Ég verð svo sveitt á
úln liðnum.“
„Anna Dís,“ andvarpaði hún. Eins og hún væri dauðþreytt og vissi ekki
hvað hún ætti annað að segja eða gera. Skyndilega kraup hún niður og
byrjaði að losa reimarnar á skónum mínum eins og hún gerði þegar ég var
lítil og kunni ekki að reima. „Lyfta,“ sagði hún og ég lyfti fætinum, fyrst
öðrum og svo hinum, og hún tosaði af mér skóna. Hún studdi sig við hnéð á
mér til að standa á fætur. Eitt andartak var hárið á henni alveg við andlitið á
mér og ég fann lyktina af sjampóinu hennar. Það var sæt og gervileg ávaxta-
lykt eins og af niðursoðnum ferskjum. Hún renndi niður úlpunni minni og
ég hreyfði handleggina til að hjálpa henni að tosa hana af. Hún braut úlpuna
varlega saman og lagði yfir handlegginn, beygði sig svo niður til að taka upp
skóna.
„Við erum ekki búnar með þetta samtal,“ sagði hún „en ég verð að hringja
í pabba þinn og láta hann vita að þú sért komin heim. Þú þarft að biðja hann
afsökunar. Hann hafði svo miklar áhyggjur af þér. Við bæði.“
„Ég veit,“ sagði ég lágri röddu. „Fyrirgefðu. Mér þykir það leitt.“